132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:26]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það hljóta allir í þjóðfélaginu að muna eftir miklum deilum milli ríkis og sveitarfélaga út af tekjuskiptingunni. Þær hafa staðið lengi og eru ekki fullleystar hvað sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar segja um það mál. Það er einfaldlega svo að sveitarfélögunum er ekki séð nægilega vel fyrir í tekjustreyminu þó svo að ríkið hafi talsverðan afgang í fjárlögum. Sveitarfélögin þurfa auðvitað að hafa vissu fyrir tekjum til verkefna sinna og þegar kjósa á um sameiningu þurfa menn að vera nokkuð vissir um hvað stendur til boða og hvað fylgir með. Sporin hræða því miður í þessum efnum og hægt er að finna þau spor alveg aftur til 1990.

Þær sameiningar sem áttu sér stað á síðasta áratug síðustu aldar eru í mörgum tilfellum sameiningar sem fólk er ekki mjög sátt með, einkum þau loforð sem þar voru gefin sem áttu að fylgja. Samgöngur eru sums staðar mjög mikill þrándur í götu fyrir sameiningu sveitarfélaga og fólk telur að það þurfi að sjá fyrir endann á bættum samgöngum eða loforðum um slíkt til að geta gengið til þessa verks með þeim hætti að vilja sameininguna. Það sem liggur fyrir úr þessari atkvæðagreiðslu er að fólk er einfaldlega ekki tilbúið að stíga þessi skref. Hafi ríkisstjórnarflokkarnir gengið með þá hugsun að það væri það þá er það greinilega á misskilningi byggt.

Þverpólitísk nefnd, sagði hæstv. ráðherra hér áðan. Ég vil taka fram að við frjálslyndir fengum ekki sæti í þeirri nefnd.