132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:29]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég vil byrja á að segja að tekjustofnaviðræðum lauk í mars með samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga, samkomulagi um verulega aukna fjármuni til sveitarfélaganna svo hleypur á milljörðum króna, raunar nálægt 10 milljörðum nánar tiltekið.

Menn geta haft sínar skoðanir á því samkomulagi en fulltrúar ríkis og sveitarfélaga komust að niðurstöðu með einni undantekningu, hæstv. forseti. Menn mun ávallt greina á um tekjustofna sveitarfélaga, það er ekkert nýtt. Það er ágreiningur í öllum löndum um þessi mál og á Evrópuvettvangi.

Um að tillögurnar hafi verið felldar vegna óuppgerðra mála í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er það að segja að sáralítil umræða var um þessa hlið mála á íbúafundum. Almennt voru íbúar ekkert að velta þessu fyrir sér. Almennt ræddu íbúar um þau mál sem ástæðu þess að þeir væru á móti sameiningu sem hér má rekja, hæstv. forseti, mismunandi skuldastöðu sveitarfélaga í þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar, ótti við hina stóru, ótti við hið óþekkta í kjölfar sameiningar, óttinn við að verða jaðarbyggð, samgönguvandamál, fjallskil, jarðir, afréttir og skólann, mun meira var rætt um þetta, hæstv. forseti, en tekjustofna. Þetta sama ræða menn nú í Danmörku þar sem verið er að fækka sveitarfélögum stórlega með lagasetningu en ekki kosningum.

Hæstv. forseti. Kjarni málsins er þessi: Sveitarstjórnarmenn óskuðu eftir því að ríkisvaldið kæmi að verkefni sameiningu sveitarfélaga. Við því var að sjálfsögðu orðið. Alþingi samþykkti þá aðferð sem beitt var fyrir fáeinum missirum. Hið sama fólk og situr í salnum í dag, hæstv. forseti. Kosningin hefur farið fram. Fyrir liggur lýðræðisleg niðurstaða. Við unum henni að sjálfsögðu að stjórnarandstöðunni undanskilinni. Það er óskiljanlegt, hæstv. forseti, að lýðræðisleg niðurstaða kosninga skuli fara svo í taugarnar á lýðræðislega kjörnum fulltrúum fólksins í landinu hér á Alþingi.