132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Aðgangur að gögnum einkavæðingarnefndar.

[15:45]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það liggur fyrir að allra dómi að einkavæðing Símans var afskaplega vel heppnuð. Nú veit (Gripið fram í.) … nema þá kannski Vinstri grænna. Ég hef ekki heyrt frá neinum öðrum. En mér finnst þá að Vinstri grænir hér á Alþingi eigi ekki að tala fyrst og fremst um formsatriði heldur halda sig við málið, þ.e. að þeir hafi verið andvígir einkavæðingu Símans. Það er heiðarlegt og þá afstöðu hafa þeir að sjálfsögðu heimild til að taka. Einkavæðing Símans var afskaplega vel heppnuð og það vill svo til að hún er til umræðu á eftir.

Auðvitað hafa verið gerðar athugasemdir í þessum málum. Síðast lagði umboðsmaður Alþingis fram ákveðnar spurningar. Þeim verður að sjálfsögðu svarað og þetta ferli hefur allt saman verið opið og framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur haldið mjög vel utan um málið og þá sérstaklega núna síðast í sambandi við einkavæðingu Símans.