132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:12]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er auðvitað ljúft og skylt að þakka Kristjáni Möller, hv. 3. þm. Norðvest., fyrir tillöguflutning hans í þessu máli. Hins vegar finnst mér kannski of mikið sagt að málið hafi ekki verið komið á dagskrá þegar hv. þm. Kristján Möller flutti sína ágætu tillögu. Þetta mál er búið að vera á döfinni í nokkur ár og hefur verið unnið mikið undirbúningsstarf og þess vegna er málið á dagskrá. En ég vil að sjálfsögðu þakka tillöguflutning Samfylkingarinnar og hv. þingmanns í þessu máli. Það sýnir að samstaða er um málið og ég met það mikils.

Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni, 1. þm. Reykv. n., að það er þörf á uppbyggingu í hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. En það er nú einu sinni svo að þetta var tekið út úr sem verkefni sem ekki er unnt að vinna með hinum venjulega hætti sem við höfum við fjárveitingar. En það gefur þó rými til þess að taka á öðrum málum og ég vona að það gefist rými til að taka á því máli.

Ég vil líka taka það mjög skýrt fram, af því að við metum það mjög mikils í heilbrigðisráðuneytinu, að milljarður var settur í búsetumál geðfatlaðra. Þó að það heyri ekki beinlínis undir okkar ráðuneyti þá er þar um okkar skjólstæðinga að ræða. Það met ég afar mikils og lagðist á árarnar með það. En vonandi gefst tækifæri til þess að taka á í hinu málinu.