132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bara algjörlega ósammála hæstv. forsætisráðherra. Það kemur kannski að því að ég hafi meiri trú á ríkissjóði og möguleikum hans inn í framtíðina en hæstv. ráðherra hefur haft. Ég viðurkenni að vísu að ef menn reita tekjustofnana af ríkissjóði jafnötullega og hæstv. ríkisstjórn gerir með skattalækkunaráformum sínum upp á hátt í 3 tugi milljarða á þremur árum þá munar auðvitað um það og ríkissjóður verður að því marki veikari hvort heldur er til rekstrar eða fjárfestinga á komandi árum.

En ég bendi líka á það, frú forseti, að allar þessar stóru framkvæmdir hafa verið í undirbúningi. Við erum að tala hér um samgönguframkvæmdir sem eru nánast án undantekninga inni á vegáætlun. Við erum að tala um hátæknisjúkrahús sem hefur verið til umræðu í mörg ár og í undirbúningi, samanber skipulagsákvarðanir á Landspítalalóð o.s.frv. Það hefur aldrei verið rætt um þessa hluti þannig fyrr en nú að forsenda þess að við gætum ráðist í þær væri að selja eignir ríkisins. Það eru bara heimatilbúin rök ríkisstjórnarinnar til að reyna að láta þennan gjörning líta betur út og reyna að sætta þjóðina við hann sem reyndar sér í gegnum það og er, þrátt fyrir að búið væri að tilkynna um hvernig nota ætti silfrið, að meiri hluta til andvíg einkavæðingu Símans samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Gallups þar um. Það hefur ekki gengið betur en svo hjá öllu batteríinu að flytja fram málstað og rök ríkisstjórnarinnar að meiri hluti þjóðarinnar er enn andvígur þessari ráðstöfun samkvæmt mjög marktækum vísbendingum bæði úr eldri og nýjum skoðanakönnunum.

Loks endurtek ég að það er eins og hver annar brandari að tala um samkeppnisrekstur af því að hér er verið að búa til einkavædda einokun og fákeppni, setja einn einkaaðila í lykilstöðu til þess að hagnast á náttúrulegri einokum í fjarskiptamálum landsmanna. Þetta hafa aðrar þjóðir m.a. reynt að varast með því að eiga áfram einhvern hlut í stóru opinberu fjarskiptafyrirtækjunum þó að þau hafi að hluta til verið einkavædd. (Forseti hringir.) Þannig á t.d. franska ríkið enn þá meira en helming í France Telecom og þýska ríkið á meira en helming í Deutsche Telekom svo dæmi séu tekin. Menn viðurkenna nú að hrakspár um að þessi fyrirtæki væru komin á fallanda fót vegna tæknibreytinga og mundu rýrna í verði hafa ekki gengið eftir heldur hið gagnstæða. (Forseti hringir.) Menn hafa vanmetið lykilaðstöðu þeirra í fjarskiptum í viðkomandi löndum.

(Forseti (RG): Ég bið þingmenn að virða ræðutíma.)