132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:09]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki betur en að hæstv. samgönguráðherra sé hluti af hæstv. ríkisstjórn og það sem hann leggur fram þar getur varla verið í andstöðu við það sem hann leggur til annars staðar. Þetta mál liggur fyrir Alþingi og Alþingi er að fjalla um það núna, einmitt núna. Ég sé því ekki að þetta sé gert fram hjá þinginu.

Varðandi hvernig fénu er ráðstafað og það notað þá fer stór hluti af því til greiðslu erlendra skulda og það breytir að sjálfsögðu engu um þenslu innan lands. En mjög stór hluti er tekinn út úr atvinnulífinu hér á landi, um 20–30 milljarðar eru teknir út úr atvinnulífinu og frystir. Það þykir góð lenska í því að berjast gegn verðbólgu. Margur hefði gjarnan viljað nota þá peninga til þess að fara í framkvæmdir en það var ekki gert og það finnst mér vera mjög ábyrgt í þessari stöðu. Það þýðir að ríkisstjórnin stendur þétt við hliðina á Seðlabankanum í því að berjast gegn verðbólgu.