132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aftur varðandi samgönguáætlunina þá hvet ég hv. þingmann til að lesa lögin um samræmda samgönguáætlun. Þar er þessu vinnuferli lýst og það talar fyrir sig sjálft. Það má segja að menn hafi sér það til afsökunar hér í því tilviki að yfirleitt eru þessar framkvæmdir á vegáætlun eða langtímaáætlun þannig að það er minna stílbrot en ella væri ef ríkisstjórnin væri þarna, eins og stundum hefur verið gert, að taka inn algerlega nýjar framkvæmdir fram hjá öllu sem áður hefur staðið í vegáætlun. Það hefur gerst, t.d. þegar göng um Almannaskarð skutu allt í einu upp kollinum í sérstakri samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar og höfðu aldrei ratað inn á vegáætlun eða langtímaáætlun um vegagerð áður. Þetta er svo sem ekki stórt mál í mínum huga en svona visst prinsippmál og það ætti þá einfaldlega að breyta lögunum um samræmda samgönguáætlun og taka út hlutverk þingsins, þingnefnda og þingmannahópa kjördæmanna ef þetta á að verða vinnulagið eftirleiðis.

Varðandi þessa miklu ábyrgð og að ríkisstjórnin standi vaktina við hliðina á Seðlabankanum. Minnstu þensluáhrifin væru auðvitað fólgin í því að selja ekki Símann og hafa það fé áfram bundið í því ágæta fyrirtæki og láta það ávaxtast þar og aukast að verðmætum og þjóna þeim markmiðum hins opinbera í fjarskiptamálum sem menn vilja gera. (Gripið fram í.) Með því að gefa sér það hins vegar að selja eigi Símann á þessum tímapunkti kemur upp spurningin um hvernig fjármununum sé ráðstafað. Ég skal fúslega viðurkenna að það er heppileg og skynsamleg ráðstöfun við þessar aðstæður að borga niður erlendar skuldir. Ég held að ég hafi sagt það opinberlega að ef eitthvað væri hefði jafnvel að mínu mati mátt nota enn stærri hluta þessara fjármuna beint í það, vegna þess að með því að kaupa gjaldeyri eða fá greiðslu í gjaldeyri og nota það fé til að borga erlendar skuldir hefur það líka jákvæð áhrif ef eitthvað er á gengi krónunnar.

Það eru hins vegar ákveðin væntingaáhrif sem myndast með því að lofa þessum miklu fjárveitingum til framkvæmda strax á árinu 2007. Það má líka velta því fyrir sér af því að ekki eru nema 15 mánuðir þangað til hvort fara eigi að taka af þessum sjóði í verulegum mæli, hvort það sé jafnvel ekki fullskammur tími ef út í það er farið, ef við vildum ræða þetta eingöngu út frá þenslurökunum. Almannarómur er nú sá að ríkisstjórnin geri í raun og veru allt vitlaust sem hægt er að gera vitlaust í efnahagsmálum og vinni á móti Seðlabankanum, ég held að flestir viðurkenni það nema ríkisstjórnin sjálf. Það er almannarómur (Forseti hringir.) úti í efnahagslífinu um þessar mundir að aðalvandamálið sé ríkisstjórnin og ég er mjög sammála þeirri skoðun og því mati.