132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:38]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rétt er að taka það fram í upphafi að það var skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að ekki hefði átt að selja dreifikerfið með Símanum en það hefur nú verið gert og verður ekki gert meira mál úr því, enda tilgangslaust eftir að salan hefur farið fram. Þá verðum við auðvitað að ræða um hvernig þessir fjármunir verða nýttir og út af fyrir sig geri ég ekki neinn sérstakan ágreining um það hvernig menn setja upp þá áætlun þó að auðvitað megi velta því fyrir sér hvort einstök atriði vanti inn í áætlunina. Ég hef t.d. nefnt og nefndi fljótlega þegar þetta kom upp að gjarnan hefði mátt gera ráð fyrir einhverri lagfæringu á stöðu eldri borgara, m.a. í þessu máli. En eins og formaður fjárlaganefndar sagði áðan þá er e.t.v. meira rými í fjárlagafrumvarpinu til að skoða það og ég legg þann skilning í orð hans án þess að ég sé að gera honum upp skoðanir, hv. þingmaður getur þá leiðrétt það.

Hins vegar hvað varðar vegaféð þá sýnist mér þegar maður les fjárlagafrumvarpið og þetta frumvarp um ráðstöfun á söluandvirði Símans saman að það gleymist tæpir 2 milljarðar eða kannski 1,8 milljarðar frá árinu 2004 því það hefur verið niðurskurður á verklegum framkvæmdum um tæpa 6 milljarða miðað við næstkomandi ár, 2006, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem við erum með í höndunum og ég get ekki séð í því að það eigi að koma til baka nema 4.

Ég spyr: Lítur formaður (Forseti hringir.) fjárlaganefndar svo á að það sé verið að fylla í skarðið með símapeningunum?