132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:40]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi vegaféð lít ég svo á, og vísa þar m.a. til svars hæstv. fjármálaráðherra sem kom fram í síðustu viku við umræðuna þá, að tekin hafi verið ákvörðun um að fresta vegaframkvæmdum upp á þá fjármuni sem hv. þingmaður nefnir og gert sé ráð fyrir að þeir komi aftur inn í vegaframkvæmdir á síðari tímum.

Ég vísa til þessa svars og hef í sjálfu sér ekkert meira um það að segja. Ég geri ráð fyrir að þetta mál komi til okkar í fjárlaganefnd og þar munum við eflaust fara yfir það hönd í hönd og fá þessar upplýsingar alveg á hreint. Ég hef því í raun ekkert meira um það að segja en það sem fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni að þetta fé komi til baka.