132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:51]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur algera sérstöðu hér. Við höfum ekki séð mál sett fram með þessum hætti. Við vitum ekki í raun og veru hvað við eigum að kalla málið. Þetta heitir frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. og er í eðli sínu líkt samgönguáætlun eða byggðaálætlun. Menn benda á tiltekna fjármuni, sem eru til staðar vegna sölu Símans, og búa til eins konar áætlun, sem er í lagaformi, um hvernig skuli gera þetta. Þetta virðist vera hugsað til þess að ríkisstjórnin geti lifað eftir sinn dag, hennar ákvarðanir standi inn í framtíðina um það hvernig eigi að ráðstafa þessum fjármunum, líklega vegna þess að þeim finnst að þeir eigi þessa fjármuni, þeir hafi aflað þeirra með ráðstöfunum sínum, svita og tárum á undanförnum árum. Þetta hefur jú tekið langan tíma og mönnum finnst þeir hafa unnið mikil afrek.

Ég er mjög ósammála því að svona skuli staðið að málum. Mér finnst allt í lagi að ríkisstjórnin hafi skoðun á því hvað eigi að gera við þessa fjármuni. En mér finnst undarlegt að ekki skuli mega fara með þá með eðlilegum hætti í gegnum fjárlög og vegáætlun. Menn eiga eftir að glíma við það á næstu árum að taka alltaf tillit til þess sem hér hefur verið komið fram eða taka afstöðu til þess að það verði ekki gert því að auðvitað getur þetta „þrátt fyrir“-ákvæði, sem margir þekkja hér og allir, komið til greina gagnvart þessum lögum þegar þar að kemur.

Það er nefnilega ýmislegt óljóst í þessu lagafrumvarpi og mér er nær að halda að ýmislegt muni breytast í framtíðinni af því sem þarna stendur. Mér nægir að benda á það sem dæmi að hér er talað um það í sambandi við fjármuni til Landhelgisgæslunnar að þar muni menn kaupa eða leigja fjölnota varðskip, kaupa eða leigja eftirlitsflugvél. Ég hef skilið það þannig að ef menn leigja eitthvað sé það rekstur, ef menn kaupa eitthvað sé það fjárfesting. Ég held að verulegur munur sé á því sem Landhelgisgæslan þarf á hverju ári til reksturs og því sem hún þarf á að halda vegna kaupa á þessum skipum og þeirri flugvél sem hér er talað um. Þess vegna gætum við staðið frammi fyrir því að það yrði allt önnur þörf fyrir fjármuni til Landhelgisgæslunnar árlega eftir því hvort skip eða flugvélar hafa verið tekin á leigu eða keypt. Fleira gæti auðvitað komið upp sem gæti orðið öðruvísi og menn þyrftu að setja „þrátt fyrir“-ákvæði í lög í sambandi við fjárlög á þeim árum sem fram undan eru. En aðalatriðið er að mér finnst það óeðlilegt að menn ráðstafi málum langt fram í tímann löngu eftir sinn dag á ríkisstjórnarbekkjunum.

Þetta er samgönguáætlun í sjálfu sér, eins og ég nefndi áðan, og við höfum séð þær margar á ferli þessarar ríkisstjórnar og ferli fyrrverandi ríkisstjórnar aftur í tímann sem ég hef fylgst með. Þá hefur það verið eins og með vorið, annað hvort ár hafa komið einhverjar nýjar ákvarðanir í samgöngumálum sem ríkisstjórnin hefur tekið. Af góðsemi sinni hefur hún útvarpað því til landsmanna að nú hafi hún ákveðið að fara í þennan eða hinn vegspottann eða þessa eða hina framkvæmdina, göngin eða hvað það nú er. Svo hratt gengur þetta fyrir sig að frá því að þetta frumvarp var lagt fyrir hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um að fara í ný jarðgöng á Vestfjörðum. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort við eigum von á því að sú framkvæmd verði fjármögnuð inni í þessum pakka, inni í þessu lagafrumvarpi, eða með öðrum hætti. Ég fagna því og mér finnst það út af fyrir sig eðlilegt að menn hafi tekið ákvörðun um að fara í framkvæmdir á Vestfjörðunum en ég held að það væri gott að menn fengju að vita hvort nota á í þær aðra fjármuni en þá sem eru til útdeilingar og þá hvernig ríkisstjórnin hugsar sér að fjármagna þau göng.

Mér finnst ástæða til að spyrja annarrar spurningar. Ég tók eftir því í fréttum þegar kom að sölu Símans að sett var fram regla sem ég hafði aldrei heyrt um fyrr. Reglan var á þann veg að ef þeir sem buðu í Símann byðu svo nærri hver öðrum, ef tölurnar yrðu það líkar að það væru — ég man ekki hvað það var — 4–5 milljarðar á milli, þá skyldi halda áfram að bjóða fram eftir deginum. Ég fékk aldrei að heyra neina útskýringu á því að þessi regla var höfð þarna með. Það reyndi að vísu ekki á hana vegna þess að sá sem átti hæsta tilboðið í Símann var svo hátt fyrir ofan þann sem næstur kom að ekki kom til þess að ákvæðið yrði notað. En ég tel fulla ástæðu til þess að upplýsa það við umræðuna hver tilgangurinn með þessari reglu var, mér fannst hún ótrúlega undarleg. Mér fannst að hún gæfi þeim sem ætlaði sér að kaupa Símann, þeim sem hafði til þess bestu þekkinguna að gera sér grein fyrir verðmæti hans, þeim sem ætlaði sér að hremma þetta fyrirtæki í þessu útboðsferli, tækifæri til þess að skoða tilboð sitt út frá því. Sá sem ætlaði sér að ná í fyrirtækið með hæsta boði sá fram á að geta lækkað það um þann mismun sem þar væri á ferð. Hann vissi fyrir fram að hann gæti gert tilboð aftur ef fram kæmi tilboð sem væri hærra en hans. Sá sem hafði metið Símann á 72 milljarða hefði getað lækkað tilboð sitt niður í 67 milljarða þar sem hann sá fram á að hann fengi tækifæri til að bjóða aftur ef einhver annar færi upp fyrir þessa tölu. Það er nauðsynlegt að menn viti hvernig þessi regla var hugsuð og hvort hún var tillaga frá þeim aðilum sem gáfu ráðin eða hvort hún kom inn síðar í ferlinu því að einhverja útafbreytni hafa menn nú stundað í sambandi við þá ráðgjöf sem þeir hafa fengið við sölu á ríkisfyrirtækjum á undanförnum árum.

Vegaframkvæmdirnar eru stór liður í þeirri ráðstöfun sem hér er á ferð og eru allar hin bestu mál, með fyrirvara um það sem ég hef sagt hér áður um að menn eigi ekki að ráðstafa hlutum með þeim hætti sem hér er gert. En það er eitt sem ég get ekki sætt mig við. Hér er sett fram tillaga um það hvernig Sundabrautin skuli fjármögnuð. Við þá tillögu er hengd, að því er virðist, ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hluti af Sundabraut skuli fjármagnaður í einkaframkvæmd og að gjald skuli innheimt fyrir að nýta þau mannvirki í framtíðinni. Það vill svo til að Sundabrautin tengir höfuðborgarsvæðið norður og vestur um landið, en einmitt á þeirri leið hafa menn þurft að greiða fyrir að fá að fara í gegnum umferðarmannvirki. Menn hafa borgað það mikið fyrir það umferðarmannvirki að ríkið mun eignast það skuldlaust á 20 árum.

Samgönguráðherra hefur á undanförnum árum margoft lýst því yfir að einhvers konar stefnumörkun stæði yfir hvað varðar gjaldtöku af umferðarmannvirkjum. En þrátt fyrir að ríkisstjórnin taki nú þessa ákvörðun, og lýsi því í raun og veru yfir að það standi til að byggja hluta af þessari leið vestur og norður um land í framhaldi af Sundabrautinni með einkaframkvæmd og að innheimta þar veggjöld, þá fylgir ekkert með um það hver sú stefnumörkun er. Það liggur beint við að menn álykti sem svo að hugmyndin sé sú að áfram skuli það vera þannig að þeir sem koma að norðan og vestan til höfuðborgarsvæðisins skuli sko borga fyrir aðganginn en þeir sem koma að sunnan og austan skuli ekki gera það.

Það er nú ekki eins og það hafi ekki kostað töluvert að byggja umferðarmannvirki sem liggja sunnan og austan að borginni. Það er nú ekki eins og ekki hafi á undanförnum árum verið veitt í það neinum fjármunum að bæta samgöngur til borgarinnar að sunnan og austan. Ég tek þetta hér til umræðu vegna þess að mér finnst það ekki vansalaust að ekkert skuli hafa komið út úr yfirlýsingum hæstv. samgönguráðherra hvað eftir annað um þessa stefnumörkun sem átti að liggja fyrir fyrir meira en ári, líklega tveim árum síðan fyrst, um gjaldtöku af umferðarmannvirkjum, af samgöngum í landinu. Það kann vel að vera að í pokahorni ríkisstjórnarinnar eða samgönguráðherrans séu einhverjar leiðir sem við höfum ekki fengið að sjá, sem tryggja einhvers konar sanngirni hvað varðar innheimtu vegna umferðarmannvirkja. En það er ekki gott að ræða þær þegar þær hafa ekki komið fram. Mér finnst það ekki þolandi að ríkisstjórnin leggi fram tillögu sem er svona stór í sniðum og lýsi því yfir að það eigi að fjármagna þetta í einkaframkvæmd og útskýri það ekki nánar. Menn hljóta að draga þá ályktun að það eigi að borga og að þeir skuli borga sem nýta þessi mannvirki. Sá hópur sem kemur til með að borga þetta mannvirki er því mjög sviplíkur þeim hópi sem hefur verið að greiða Hvalfjarðargöngin. Ég hefði talið ástæðu til þess að menn gerðu grein fyrir því hvað þeir ætla sér, hvort það er eitthvað sem alþingismenn ekki vita, eitthvað sem væri uppi í ermi eða í pokahorni ríkisstjórnarinnar eða hæstv. samgönguráðherra, og það komi þá fram í þessari umræðu.

Síðan er það fjarskiptaáætlunin. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita svolítið meira um það hvernig menn ætla að standa að því máli. Gert er ráð fyrir því að til verði sérstakur sjóður, fjarskiptasjóður. Hann á að nota til að sjá til þess að bætt verði við fjarskiptakerfið í landinu þannig að fólk á landsbyggðinni sérstaklega fái þá þjónustu sem eðlilegt er að veita og að menn haldi áfram með uppbyggingu þess kerfis sem til þess þarf.

Þessari leið ríkisstjórnarinnar fylgir erfiður vandi. Hér er talað um að það eigi að bjóða þessi verkefni út. Það vill bara þannig til að þeir sem keyptu Landssímann hafa séraðstöðu til þess að uppfylla öll þessi verkefni. Það kann að vera að litli samkeppnisaðilinn, hann er kannski ekki beint lítill en hann er mjög lítill í samanburði við Landssímann, geti veitt einhverja samkeppni á einhverjum tilteknum svæðum. En Landssíminn sjálfur er með grunnnetið um allt land og viðbætur við kerfið eru að öllum líkindum miklu auðveldari og ódýrari í framkvæmd og rekstri fyrir Landssímann en fyrir einhverja nýja aðila.

Ég get ekki betur séð en að Landssíminn hafi bókstaflega tak á þessum fjarskiptasjóði, geti verðlagt ný verkefni eins og honum sýnist einfaldlega vegna þess að enginn annar aðili eigi möguleika á að bjóða í verkefnin á líkum grunni. Slíkar framkvæmdir gætu því kostað miklu meira en raunvirðið. Ég held að þarna þurfi menn að gá mjög vel að sér og jafnvel að það þurfi að nota einhverjar aðrar leiðir til þess að ná fram hagstæðum tilboðum. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef þessi stóri aðili hirðir allar viðbætur á verði sem hann ákveður sjálfur við sitt skrifborð vegna takmarkaðrar samkeppni, því að auðvitað er ekki nóg að bjóða út verkefnin sjálf, það þarf líka að bjóða út rekstur á þeim og þá kemur auðvitað þessi séraðstaða Landssímans til.

Menn hafa verið býsna hreyknir af þessu verkefni, að einkavæða Landssímann, og hafa kallað þetta stærstu einkavæðingu sögunnar. Víst eru þetta stórar tölur í okkar augum. Mér finnst aftur á móti að við þurfum að halda til haga gagnrýninni sem hefur verið á þetta mál, fyrst og fremst þeirri einokunaraðstöðu og fákeppnisaðstöðu sem Síminn er í og þeim mikla vanda sem eftirlitsaðilar standa nú frammi fyrir. Auðvitað hafa eftirlitsaðilar alltaf átt við ákveðinn vanda að glíma en hann verður enn meiri nú en áður. Þeir þurfa að sjá til þess að einhvers konar samkeppni ríki á markaði og að þessi stóri aðili geti ekki nýtt sér einokunaraðstöðu sína. Ég held að alþingismenn verði að hafa sérstakt eftirlit með þessu á næstu árum vegna þess að það er ekkert sem bendir til þess að þetta fyrirtæki verði ekki í svipaðri aðstöðu í framtíðinni og það hefur verið í fortíðinni. Og þó að þessi eini aðili sem er burðugur á markaðnum sé eitthvað að stækka þá er fákeppnin oft og tíðum lítið betri en einokunin. Það höfum við séð og við sjáum það á rekstri fyrirtækja sem hafa fákeppnisaðstöðu hér á landi að þau hagnast gríðarlega. Það má t.d. nefna að í byggingarvöruverslun á Íslandi hafa tvö fyrirtæki nánast náð öllum markaðnum. Þeir aðilar sem áttu þessi fyrirtæki á árum áður eru báðir búnir að selja þau fyrirtæki fyrir gríðarlega fjármuni þannig að sá rekstur hefur gefið ótrúlega mikinn arð sem segir bara eina sögu, að samkeppnisumhverfið var ekki í lagi. Þessi fyrirtæki eru líka áfram tvö ein og yfirgnæfandi á þessum markaði og ég er algjörlega sannfærður um að það vantar samkeppni á byggingarvörumarkaðinn.

Það er mikill vandi í hinu litla samfélagi okkar að sjá til þess að samkeppnin skili okkur eðlilegu vöruverði. Fákeppnisumhverfi eins og hér er er auðvitað ekki gott. En ég vona að hæstv. forsætisráðherra svari þeim spurningum sem ég lagði fram. Hvort hann gerir það í andsvari við mig núna eða í lok þessarar umræðu kemur í ljós.