132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt gott í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Ef menn á annað borð hafa tekið ákvörðun um að verja peningunum með það fyrir augum að endurdreifa andvirði Símans þannig að sem réttlátast sé þá er hægt að sjá margt jákvætt í frumvarpinu. Ég er t.d. ákaflega ánægður með að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðið skuli hafa tekið svo glæsilega undir tillögu hv. þingmanns Kristjáns L. Möllers varðandi það að nota andvirði Símans til að byggja upp hátæknisjúkrahús. Ég er líka mjög ánægður með að ríkisstjórnin skuli hafa tekið ákvörðun um að setja milljarð í málefni geðfatlaðra.

Ef maður skoðar þetta frumvarp kemur í ljós að peningarnir eru nýttir til að stoppa upp í göt. Það var búið að lýsa því yfir, bæði af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins og síðar af hæstv. heilbrigðisráðherra, að gera ætti átak í málefnum geðfatlaðra. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, hefur margsinnis lýst því yfir. Það hefur alltaf skort peninga til þess en nú koma þeir.

Það lá fyrir að kaupa þyrfti nýtt varðskip og byggja það en til þess vantaði peninga. Þeir eru teknir þaðan. Gott og vel, ég ætla ekki að deila á það.

En það er eitt sem mér finnst sárvanta í þetta frumvarp og það er alúð við aldraða. Aldraðir Íslendingar voru á blómaskeiði og héldu uppi þessu samfélagi þegar Síminn byggðist upp. Af hverju er ekki sett fjármagn í átak til þess að mæta þörfum þeirra fyrir hjúkrunarheimili og dvalarheimili? Við vitum að það er rík þörf á því á næstu árum. Af hverju gleymast þeir? Af hverju gleymdust þeir í togstreitu kjördæmapotaranna þar sem hver reyndi að hrifsa til sín eins og hægt var: vegi hér, vegi þar, varðskip þar, flugvél hérna.

Frú forseti. Ég spyr formann þingflokks sjálfstæðismanna: Finnst henni ekki vanta þennan þátt í frumvarpið?