132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:18]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að fyrirtækið hefði fært ríkissjóði miklar tekjur en nú ættu aðrir að njóta góðs af. Þeir borga 67 milljarða fyrir að fá að njóta góðs af. Ríkissjóður mun græða miklu meira með lækkun vaxta af erlendum skuldum og innlendum.

Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þingmanns, að hann hefur enn þá trú á að hagnaður eins sé annars tap. Þetta er reyndar trú sem Jón Sigurðsson frelsishetja Íslendinga reyndi að útiloka, koma úr hugum manna. En nú nærri 200 árum seinna grasserar hún enn í hugum sumra.

Hugsum okkur tvö fyrirtæki, annað er rekið með snilli, skilar alltaf hagnaði og getur borgað há laun. Hitt er illa rekið með tapi öll ár og borgar lág laun. Þau geta verið með nákvæmlega sömu þóknanir, nákvæmlega sama vöruverð o.s.frv. Hvort viljið þið? Er hagnaður vel rekna fyrirtækisins tekinn frá einhverjum? Hann er ekki tekinn frá neinum. Hann verður bara hreinlega til. Þetta hefur sýnt sig í einkavæðingu bankanna, að þeir voru kross á ríkissjóði öll ár og skiluðu engum hagnaði. Það þurfti meira að segja að styðja þá. Nú þegar þeir hafa verið einkavæddir skila þeir myljandi hagnaði þannig að arðgreiðslurnar eða hagnaðurinn sem þeir borga skatt af er farinn að hlaupa á milljörðum. Ég bið hv. þingmann að reyna að komast yfir þessa hugsun, að hagnaður eins sé tap annars. Það er nefnilega þannig í viðskiptum að allir eiga að græða, báðir aðilar sem eiga viðskipti saman.

Hann nefndi að hagnaðurinn af þessum 67 milljörðum yrði að vera 15% að lágmarki. Það þýðir 9 milljarða í hagnað. Af því munu menn borga 1,6 milljarða í skatta, með 18% skattprósentu, sem er þreföldun á skattgreiðslum til dagsins í dag. Það er forsendan sem hv. þingmaður gaf sér sjálfur.