132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum náttúrlega að tala um peninga sem koma frá okkur, frá þjóðinni. Spurningin er hvort og hve marga milliliði þeir peningar eiga að fara í gegnum. Hv. þingmaður nefndi söluupphæðina, 66,7 milljarða, sem ríkissjóður fær í sinn hlut til að greiða niður skuldir o.s.frv. Ágætt. En við eigum að horfa á þessi mál til mjög langs tíma, ekki til skamms tíma.

Hv. þingmaður telur að ég líti svo á að hagnaður eins sé annar tap og ég telji að það sé lögmál, ófrávíkjanleg regla. Það er ekki rétt. Ég segi að í þessu tilviki, þegar við erum að tala um grunnþjónustu í landinu sem mun mala gull til frambúðar, sé óráðlegt að færa hana úr eignarhaldi ríkisins.

Varðandi bankana og þá staðhæfingu hv. þm. Péturs H. Blöndals að þeir hafi verið kross á ríkissjóði og ríkið hafi þurft að hlaupa undir bagga þá man ég eftir einu slíku tilviki gagnvart Landsbankanum kringum 1990. Þeir peningar voru greiddir til baka. Þar er því röng staðhæfing hjá hv. þingmanni.

Síðan skulum við ræða um það við tækifæri hvað er að gerast í fjármálaheiminum og hvort bankarnir, einkavæddir bankar, sýni þá ábyrgð í fjármála- og efnahagslífi okkar sem við helst vildum. Það skulum við ræða frekar en þar hef ég talsverðar efasemdir.