132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði ekki að það væri ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja af strandsiglingar. Hún greip til ráðstafana sem urðu til þess að strandsiglingar lögðust af. Auðvitað vill fólk fá mjólkurvöru með skömmum fyrirvara en sé varan traktor eða jarðýta þá hefði ég talið heppilegra að flytja hana á sjó en á vegum, sem að sjálfsögðu þarf að byggja upp. Ég man eftir ágætri umræðu í þingsal þar sem nánast allir, úr öllum flokkum, voru sammála um kosti þess að efla strandsiglingar vegna þess að það væri þjóðhagslega hagkvæmara.

Varðandi arðgreiðslurnar þá er ég með þetta allt sundurliðað og get svarað því mjög nákvæmlega. Árið 1992, svo að ég taki dæmi, voru arðgreiðslurnar 1.408 millj. kr. í ríkissjóð. Árið 1993 1.180 millj. kr. Það var 1 milljarður kr. árið 2002. (Forseti hringir.) Árið 2003 voru það 2.146 millj. kr. Geysilegir fjármunir hafa runnið í ríkissjóð frá þessari gullkvörn sem ríkisstjórnin er að selja frá okkur.