132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:55]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta segir ekkert um opinbera starfsmenn nema að þeir séu kannski ekki best hæfir til að taka áhættu. Þeir hafa valið sér starf hjá ríkinu vegna þess öryggis sem ríkið veitir og tryggingar á starfsöryggi og öðru slíku. Þeir geta verið mjög hæfir og góðir starfsmenn. Flestir opinberir starfsmenn eru mjög hæfir starfsmenn sem sinna starfi sínu en hafa kosið öryggi. Það fólk er alla jafna ekki tilbúið að taka þá áhættu sem fylgir því að fara út í áhætturekstur og nýsköpun. Það er mín skoðun.

Þeir sem standa í áhætturekstri er áhættuglatt fólk og það vinnur helst ekki hjá ríkinu. Það er munurinn og segir ekkert um það hvort opinberir starfsmenn séu verri eða betri en annað fólk. En ég tel að hjá hinu opinbera starfi menn sem sækjast í öryggi og vinna af staðfestu með jöfnu framlagi alla daga og skili vissulega góðu starfi í því umhverfi, t.d. á spítölum, í háskólum og öðrum skólum eða hvar sem er. Þar skila þeir góðu starfi. En ég hef ekki trú á opinberum starfsmönnum í nýsköpun. Nýsköpun krefst þess að menn taki mikla áhættu og jafnvel tapi einhverju og alloft tapa menn á nýsköpun. Sumir tapa og aðrir græða. Að mínu mati þarf til þess aðra tegund af fólki en opinbera starfsmenn.