132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þetta svar. Ég er heldur sáttari við hann eftir svarið en eftir yfirlýsingar hans áðan. Ég er hins vegar ósammála hv. þingmanni. Ég tel að framfarir verði ekki einvörðungu vegna áhættu sem menn eru reiðubúnir að taka. Það á við í einhverjum tilvikum, það er alveg rétt, en í miklu fleiri tilvikum verða framfarirnar vegna samvinnu manna í milli. Það á við um framfarir á 20. öld, á sviði vísinda og í læknavísindum. Þar sem við höfum verið að ræða um Póst og síma þá urðu geysilegar framfarir á sviði fjarskipta, einnig hér á landi, innan ríkisrekins Pósts og síma.