132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:16]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hrósa framkvæmd á einkavæðingu Símans og mér finnst það drengskapur hjá honum að koma hér upp og segja að þarna hafi verið vel að verki staðið. Ég var hins vegar ekki alveg jafnánægð með að mér fannst hann tala óvirðulega um vegaframkvæmdir á landsbyggðinni en hann kallaði þær kjördæmapot. Mér finnst þetta óvirðulega talað um nauðsynlegar framkvæmdir sem við þurfum auðvitað að ráðast í. Af því að hv. þingmaður fékk mikinn og góðan stuðning á landsbyggðinni í formannskjöri í flokki sínum þá veit ég að hann á eftir að koma upp og draga þessi orð til baka því hér er verið að tala um lífsnauðsynlegar framkvæmdir á landsbyggðinni.

Þrátt fyrir að hv. þingmaður frábiðji sér að talað sé um að þessar framkvæmdir rýmki til fyrir öðrum framkvæmdum þá er það auðvitað svo að við erum með fjárlög í gildi og mikla fjármuni og þeim erum við að ráðstafa til margra góðra verka, þar á meðal til byggingar hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Ég vil líka minna hv. þingmann á að fyrir tveimur árum var gerður samningur við aldraða og unnið hefur verið eftir áætlunum varðandi það að byggja upp hjúkrunarrými og einungis fyrir nokkrum dögum síðan var gerður samningur um 120 ný hjúkrunarrými í Reykjavík. Ég held að hv. þingmaður hljóti að fagna þessu framtaki sem bara nú nýverið er eitt af þessum dæmum. En auðvitað eru mörg verkefni sem eru í gangi og sífellt verið að ræða um og gera áætlanir um ný hjúkrunarrými.