132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:19]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að þakka mér að hafa farið tiltölulega jákvæðum orðum um aðferðina við sölu Símans. Ég hef fylgst með þessu máli. Ég var mjög ósáttur þegar farið var um þetta hið fyrra sinni. Ég hef lýst fyrirvörum mínum. Ég er á móti því að dreifikerfið hafi verið selt. En staðreyndin er bara sú að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að selja. Ég vildi að það hefði verið staðið öðruvísi að því en ég hef hins vegar ekki séð neina sérstaka hnökra á sölunni og ég er ánægður með verðið. Ef ég man rétt er verðið 10 millj. meira en ég og aðrir töldu að mundi fást fyrir þetta og við gripum þá tölu ekki út úr loftinu heldur leituðum til manna, svo ég er ánægður með það. Ég er ánægður með margvíslegar framkvæmdir sem á að nota þetta fé í. Ég hef verið hér í allan dag og lýst ánægju minni t.d. sérstaklega með milljarðinn til geðfatlaðra. Það er tiltölulega flott mál.

Ég skal hins vegar segja hv. þingmanni það alveg hreint út að ég vil heldur draga úr vegaframkvæmdum sem eru ákvarðaðar með framkvæmd frumvarpsins og setja í framkvæmdir vegna aldraðra. Það er bara mín ærleg og einlæg sannfæring. En ég á við sama reip og draga og aðrir sem tala svona. Ég ímynda mér að jafnvel þó ég mætti ráða því sjálfur væri það erfitt innan míns eigin flokks vegna þess að þar ríkja sömu lögmál og ég er ekkert að draga dul á það. Ég hika hins vegar ekki við að segja að auðvitað sé ég fingraför, kjördæmapot er á þessu. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að ég hlusta. Ég sit í þessum sal og ég hlusta og er búinn að gera það árum saman. Ég veit um óskir ykkar. Ég veit hver gæluverkefnin ykkar eru. Ég þekki þetta allt saman og ég sé það bara að þeir sem ég tel vera þyngsta og frekasta í stjórnarliðinu, kjördæmi þeirra fá mest. Það er svo einfalt mál.

Ég ítreka það aftur að hv. þingmaður hefði frekar átt að berjast svolítið fyrir því að aldraðir fengju rúma fjárveitingu til þess að byggja dvalarheimili og hjúkrunarheimili.