132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:21]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo ótrúlegt að ef er verið að tala um framkvæmdir á landsbyggðinni þá heitir það kjördæmapot. Hv. þingmaður talar t.d. heldur jákvætt um Sundabraut. Er það af því að annar endi hennar eða sennilega öll brautin liggur innan hans kjördæmis? (Gripið fram í.) Mér finnst eiginlega ekki alveg nógu gott hjá þingmanninum að tala með þessum hætti um góðar framkvæmdir í vegamálum.

Ég vil líka benda á að til Framkvæmdasjóðs aldraðra fara í því fjárlagafrumvarpi sem við erum að fjalla um nú haustdögum 1 milljarður kr., nánar tiltekið 1.002 millj. En auðvitað er verið að vinna í uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða með mjög ábyrgum og góðum hætti. Það er verið að efla heimahjúkrunina og heimaþjónustuna sem skiptir auðvitað mjög miklu máli því að það er nú einu sinni svo að hér á landi er stofnanauppbyggingin meiri en annars staðar þekkist og það hefur orðið sú stefnubreyting að menn vilja frekar veita öldruðum þjónustu heima fyrir sem lengst en auðvitað eigum við að standa vel að því að byggja upp þau hjúkrunarrými sem þörf er á og ég ítreka að það er verið að gera. Það er verið að gera í Hlíð á Akureyri, á Hrafnistu, á Droplaugarstöðum og eins og ég sagði áðan, fyrir örfáum dögum síðan var skrifað undir samning um 120 ný hjúkrunarrými í Reykjavík. Hér er verið að vinna að mörgum góðum verkefnum sem er auðvitað mjög nauðsynlegt og við getum verið sammála um það en þar er unnið samkvæmt áætlun.