132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir auðvitað vænt um að hv. þm. Pétur Blöndal álíti pólitíska vigt mína og áhrif mjög mikil. Mér þykir auðvitað vænt um að hann komi hingað og geri því skóna að ég eigi ósmáan þátt í því að 26 milljarðar fari í mitt kjördæmi.

Nú er það svo að það er ekkert sérstaklega kalt á milli mín og ríkisstjórnarinnar en ég verð samt að trúa hv. þingmanni fyrir því að áhrif mín á ríkisstjórn Íslands ná ekki svo langt að ég hafi getað haft þessi áhrif. Sannast sagna hef ég því miður ekki haft nokkur áhrif á þetta frumvarp sem við höfum nú til umræðu. Ég lít heldur ekki svo á að þessar framkvæmdir, hátæknisjúkrahúsið og Sundabrautina megi sérstaklega setja á reikning höfuðborgarinnar eða færa henni sérstaklega til eignar, og alls ekki öðru kjördæminu af þeim tveimur sem saman mynda höfuðborgina.

Ég tel að hátæknisjúkrahúsið sé eitthvað sem gagnist allri landsbyggðinni og ég held að það séu rökin fyrir því að menn treysta sér til að setja svona stóran hluta í það. Ég held sömuleiðis að Sundabrautin sé ekki mál Reykvíkinga sérstaklega. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur ekki misst sjónar á þeirri staðreynd að menn aka ekki bara út úr Reykjavík heldur koma til baka og þeir sem búa á landsbyggðinni aka til Reykjavíkur og síðan fara þeir sína leið aftur til baka þannig að þetta er samgöngubót sem gagnast öllum. Það er ekki ég sem held því fram endilega. Þeir sem hafa verið hvað skeleggastir í röksemdafærslunni fyrir því eru hv. þingmenn landsbyggðarinnar sem hafa tekið undir nauðsyn þeirrar samgöngubótar. (Gripið fram í.) Ég er gamall sjómaður af Raufarhöfn þannig að ég veit allt um vegasambandið þangað.