132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:29]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður skildi greinilega ekki hæðnina sem fólst í þessum orðum mínum þannig að ég þarf sennilega að fara að setja gæsalappir utan um þetta. Auðvitað var ég að hæðast. Ég sagði sjálfur að ég notaði alla vegi landsins og nú langar mig til að spyrja hv. þingmann: Getur það verið eða vill hann lofa því að hann muni ekki nota Suðurstrandarveginn eða Þverárfjallsveginn? Getur hann lofað því? Allir vegir landsins eru notaðir af öllum landsmönnum í báðar áttir að sjálfsögðu og ég hef margoft lagt áherslu á það og ég er á móti því að menn séu að skipta landinu upp í kjördæmi varðandi framkvæmdir.

Auðvitað verður háskólasjúkrahúsið notað af öllum landsmönnum. Auðvitað verður Sundabraut notuð af landsbyggðafólki eins og öðrum. Það vill svo til að við erum með eitt land og við erum löggjafarsamkunda fyrir allt landið.