132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:30]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fullvissa hv. þm. Pétur H. Blöndal um að mér eru allir vegir færir. Það er hins vegar ekki víst að ég notfæri mér þá alla ef það verður hlutskipti hæstv. forsætisráðherra að setja einhverja ofurtolla á ferðalög mín og annarra Íslendinga, t.d. á þeirri leið eða hluta þeirrar leiðar sem við höfum rætt um. En því svarar væntanlega hæstv. forsætisráðherra á eftir.

Ég vil líka biðja hv. þm. Pétur H. Blöndal afsökunar á því ef ég hef ekki svo næman húmorískan sans að ég skilji hans djúpu fyndni. Svona er ég bara gerður og það getur enginn afsakað nema sá sem skapaði mig. Kannski er ég bara ekki nægilega mikill húmoristi til að skilja þessa íhaldsbrandara sem hv. þingmaður flytur hér úr ræðustól. Málflutningur hv. þingmanns er oft þannig að hann vekur manni hlátur án þess að hann sé endilega mjög fyndinn en það er svo önnur saga af hverju það kynni að stafa.

Ég er þeirrar skoðunar að í þessu frumvarpi sjáist gleggri merki um kjördæmapot en ég hef áður séð. Það er mín skoðun. Ég hef marga fjöruna sopið á þingi, stundum í liði með Sjálfstæðisflokknum og stundum ekki. Ég veit auðvitað að margt sem gengur á í stjórnmálunum og alls konar ákvarðanir teknar, hugsanlega þar sem þær ættu ekki að vera teknar. En herra trúr, ég hef aldrei séð svona stórfelldan gjörning sem hægt er að fella undir þetta hið heldur loðna hugtak „kjördæmapot“. Víst er að fingraför þeirra sem eru harðastir til fjörsins og sprettbestir á reiðinni í þinginu eru um allt á þessu frumvarpi. Það vita þeir sem hér hafa setið árum saman, eins og ég hef gert, og hlustað og muna.