132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:47]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég var eiginlega hikandi við að standa upp eftir að hafa hlustað á hv. þingmann því mér finnst málflutningur hans vera með slíkum eindæmum. Ég veit ekki hvað honum gengur til að halda því fram að verið sé að kaupa menn til fylgis. Er ekki eðlilegt þegar tækifæri gefst til að nota það tækifæri til að koma mikilvægum málum í framkvæmd? Og enda þótt hv. þingmaður hafi verið algerlega á móti því að skapa það tækifæri á sínum tíma fyndist mér það vera honum til sóma að standa að því að ráðstafa þessum fjármunum skynsamlega til mála sem hann hefur m.a. lagt áherslu á hér. Að halda því fram að þeir sem að þessu máli standa geri það til að kaupa menn til fylgis og að einhverjar skoðanakannanir sem gerðar voru um þessi mál fyrir einhverjum mánuðum eigi að vera ráðandi um hvað menn geri — það er alveg nýtt fyrir mér ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill í einu og öllu láta skoðanakannanir ráða gerðum sínum. Ég er ekki viss um að flokkurinn væri til ef leitað hefði verið eftir skoðanakönnunum um það. Ég efast um að flokkurinn hefði nokkurn tíma orðið til. Þessi málflutningur um skoðanakannanir í þessu sambandi er sá auðvirðilegasti sem ég hef heyrt.