132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:57]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þingmanninum er að sjálfsögðu heimilt að hafa þá skoðun. Mér heyrðist hann vera að leggja til að tekið yrði fé af Sundabrautinni og flutt í önnur mál. Það liggur fyrir að þessi áfangi Sundabrautar kostar um 8 milljarða þannig að við verðum þá að taka ákvörðun um að hafa ekki nægilegt fjármagn í það verk. Það er ekki flóknara en það. (ÖS: Og hækka bara vegtollinn?) Ég bið hv. þingmann að reyna að taka þessi mál alvarlega, að henda ekki bara gaman að þessu. Ég veit að þingmanninum er það lagið og hann er oft mjög sniðugur en þetta eru þrátt fyrir allt nokkuð alvarleg mál, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Fyrir aldraða?) Fyrir aldraða eru þetta líka sérstaklega alvarleg mál. Ég tel að málefnum aldraðra hafi aldrei verið jafn vel sinnt, sem betur fer, og nú um þessar mundir. Auðvitað má sinna þeim betur en það er mjög margt á prjónunum í þeim efnum.