132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:58]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði að þeir í ríkisstjórninni hefðu hlustað á raddir og þá hefur hæstv. forsætisráðherra örugglega heyrt þær raddir að ekki sé eðlilegt að menn hafi þann háttinn á að innheimta vegtoll öðrum megin að borginni, að hafa skattland fyrir norðan og vestan en ekki fyrir sunnan og austan. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin þurfi að leita annarra leiða til þess að fjármagna þann hluta Sundabrautar sem þarna er talað um. Mér finnst ekki vansalaust að menn skuli koma með þetta mál inn í þingið án þess að hafa hugsað það betur því að nógur hefur tíminn verið til þess. Það liggur fyrir að hæstv. samgönguráðherra hefur verið með nefnd í málinu og ríkisstjórnin hlýtur að hafa rætt þetta margoft. Niðurstaðan er sú að koma hingað með þetta mál svona án þess að geta svarað spurningunum um hvernig eigi að gera þessa hluti.

Ég spurði hæstv. ráðherra í ræðu minni fyrr í dag — hann hefur líklega ekki heyrt það. Af því að hann talaði í ræðu sinni fyrr í dag um að reglurnar hefðu verið gegnsæjar í þessu útboði þá spurði ég um undarlegt ákvæði sem var í útboðsskilmálunum sem gekk út á það að ef tilboð lægju það nálægt hvert öðru þegar fyrir lægi hvernig boðið hefði verið í Símann þá skyldi boðið aftur í það fram eftir deginum. Það hefur aldrei verið útskýrt hvaða markmiði menn ætluðu að ná með þessu og ég bið hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir a.m.k. mér.