132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[21:04]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri það kallað að selja aðgang að borginni að innheimta veggjald um Hvalfjarðargöng. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi staðið að því og stutt það. Svo kemur hann upp og fordæmir að komið geti til álita að hið sama gildi í öðrum tilvikum þegar um það er að ræða að menn geti valið aðrar leiðir.

Ég hélt satt að segja að hv. þingmaður væri áhugamaður um að ljúka Sundabrautinni. En það virðist ekki vera. Hann virðist bara vilja leggja hana hálfa leið upp í Grafarvog og síðan eigi að hætta. Hann vill ekki einu sinni ræða fjármögnun seinni hlutans. (JÁ: Ég er að því.) Hann krefst þess að ríkisstjórnin komi með svör en hefur engin svör sjálfur. Ég hef svarað því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að við erum að fara yfir þessi mál. (Gripið fram í: Skoða það?) Skoða það, skellum þessu í umræðustjórnmál (Forseti hringir.) sem er tillaga Samfylkingarinnar í öllum málum.