132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[21:05]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs og flyt aðra ræðu fyrst og fremst til að kveða niður útúrsnúninga hæstv. forsætisráðherra. Það vita allir sem vilja vita að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill styrkja velferðarþjónustuna í landinu og styrkja innra stoðkerfi samfélagsins.

Við vitum líka að það er eitt að reisa byggingar og mannvirki, að það getur kostað mikið fé. En við þurfum líka að hugsa til langs tíma. Það þarf að reka þá starfsemi sem fram fer innan þeirra stofnana. Þannig viljum við hugsa og það var á þeim forsendum sem við vöruðum við skattalækkunaráformum ríkisstjórnarflokkanna, og reyndar fleiri flokka einnig, fyrir síðustu alþingiskosningar. Við stöndum nú frammi fyrir skattalækkunaráformum sem koma til með að nema á milli 20 og 30 milljörðum kr. þegar upp er staðið, í lok kjörtímabilsins. Þetta er nokkuð sem við höfum varað við vegna þess að við viljum hafa fjármuni til ráðstöfunar í rekstur velferðarþjónustunnar í landinu og innra stoðkerfis.

Það var á þeim sömu forsendum að við vöruðum við því að Síminn yrði seldur úr eign þjóðarinnar. Við höfum fært rök fyrir því að hann malaði þjóðinni gull. Hann færði okkur mikinn arð og við teljum þetta vera skammtímalausn þótt menn sjái að sjálfsögðu að tímabundið koma umtalsverðir fjármunir í ríkissjóð.

Ég gagnrýni hins vegar að búin séu til sérstök fjárlög, eins konar einkavæðingarfjárlög, til að réttlæta nokkuð sem ég tel óvinsæla gjörð. Á einkavæðingarfjárlögum ríkisstjórnarinnar er ekki framlag til NATO. Á einkavæðingarfjárlögum ríkisstjórnarinnar er ekki framlag til sendiráða sem sum hver — ég vil ekki alhæfa um utanríkisþjónustuna — eru nokkuð umdeild. Á einkavæðingarfjárlögum ríkisstjórnarinnar eru ekki kaup á sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Nei, á einkavæðingarfjárlögum ríkisstjórnarinnar er einvörðungu að finna mál og málefni sem eru talin líkleg til vinsælda. En staðreyndin er sú að krónurnar sem koma í ríkissjóð fyrir sölu Símans eru nákvæmlega eins að eðli til og krónurnar sem þangað koma sem skattgreiðslur frá einstaklingum eða fyrirtækjum. Þetta eru sömu peningarnir.

Hvers vegna skyldu vera búin til sérstök einkavæðingarfjárlög? Það er til þess að réttlæta óvinsæla ráðagjörð. Þetta vildi ég gagnrýna.