132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:44]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel í fyrsta lagi að afar óheppilegt sé að þessi umræða fari hér fram í fjarvist hæstv. dómsmálaráðherra. Þeim sem áttu frumkvæðið að þessari umræðu var fullkunnugt um að hann átti þess ekki kost að vera viðstaddur umræðuna. Ég held líka að það sé seint hægt að segja um nokkurn ráðherra að hann sé ekki tilbúinn til að standa opinberlega við það sem fram kemur á heimasíðu hans eða annars staðar þar sem hann tjáir sig, því verður a.m.k. seint fram haldið um hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason.

Í sjálfu sér er næsta lítið annað að segja um það sem hér er verið að ræða en að þetta er auðvitað ekkert annað en útúrsnúningur af hálfu þeirra sem vilja lesa í orð dómsmálaráðherra. Hann er ekki að senda nein skilaboð, hann er ekki að senda nein fyrirmæli og það gengur ekki að menn taki hér út úr texta hans og skilji eftir það sem mestu máli skiptir sem er nefnilega það að hann vekur athygli á því í þessu samhengi að það standa lögheimildir til þess fyrir ákæruvaldið að taka mið af því sem Hæstiréttur hefur þegar sagt. Ekkert annað skiptir máli af því sem fram kemur á heimasíðu hæstv. dómsmálaráðherra.

Hér koma menn upp og telja mikilvægt að hér starfi sjálfstætt og óháð ákæruvald. Hvað er það sem gefur mönnum tilefni til að ætla að svo sé ekki í þessu máli eða öðrum málum? Mér finnst þetta vera mjög alvarlegar ásakanir sem menn verða þá að geta staðið við. Það er ekkert sem fram hefur komið hér um að ráðherrar eða aðrir sem að þessu máli koma séu með óeðlileg afskipti. Þetta mál er í einu og öllu í lögmætum farvegi og ég sé ekki betur en þeir sem eiga upphaf þessarar umræðu séu að reyna að koma því í einhvern annan farveg en því ber lögum samkvæmt.