132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:49]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni er svo mikið niðri fyrir í þessu máli að það mætti halda að hann væri aðili að málinu og það beindist gegn honum. Því er haldið hér fram að hæstv. dómsmálaráðherra hafi verið að gefa ákæruvaldinu skýr fyrirmæli um það hvernig það ætti að halda á þessu máli.

Hæstv. dómsmálaráðherra er ekkert að því. Hann er einfaldlega að segja það á heimasíðu sinni að réttarkerfið hafi ekki sagt sitt síðasta orð í málinu og það kemur líka fram í dómi Hæstaréttar.

Þar segir: „Lýkur því málinu ekki með dómi þessum gagnvart neinum þeirra.“ Það er að segja þeirra aðila sem bornir eru sökum í málinu. Hvað er nýtt í því sem fram kemur á heimasíðu hæstv. dómsmálaráðherra umfram það sem segir í þessum dómi? Að halda því fram að hæstv. dómsmálaráðherra sé að beina því til ríkissaksóknara að hann skuli gefa aftur út ákæru í þessu máli vegna þeirra 32 ákæruliða sem vísað var frá dómi er náttúrlega fráleitt. Hæstv. dómsmálaráðherra er bara að lýsa því sem Eiríkur Tómasson, prófessor í réttarfari við Háskóla Íslands, hefur einnig haldið fram og allir þeir lögfræðingar sem um þetta mál hafa rætt, nema kannski hv. þingmaður, að lögheimildir standa til þess þegar opinberum málum er vísað frá að þau séu höfðuð að nýju. Það sem meira er, við höfum ákvæði í almennum hegningarlögum sem gera beinlínis ráð fyrir því.

Það er því ekkert í þeim ummælum sem fram koma á heimasíðunni sem gefur til kynna að hæstv. dómsmálaráðherra hafi verið að gefa skýr skilaboð eða skýr fyrirmæli til ríkissaksóknara um það hvernig hann eigi að halda á málinu. Hann er bara að lýsa því ástandi sem gildir á þessu réttarsviði. Þeir þingmenn hv. sem halda því fram að framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) hafi slík afskipti eru að grafa undan réttarríkinu og þeim ágætu lagareglum sem gilda í landinu.