132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[13:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ekki veit ég hvort menn gera sér almennt grein fyrir því að þriðjungur aldraðra, um 11.000 manns, er með 110 þús. kr. á mánuði eða minna. Einstaklingur með 110 þús. kr. mánaðartekjur greiðir nú 13% skatt af tekjum sínum. Það gerði hann eða hún ekki þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp árið 1998. Frá þeim tíma hefur hallað undan fæti hjá öldruðum í samanburði við aðra hópa í þjóðfélaginu. Sé litið á þróunina frá 1990 og þar til á síðasta ári kemur í ljós að 23,5% vantar upp á að grunnlífeyrir hafi fylgt almennri þróun launa verkafólks og ef við sláum saman í eitt grunnlífeyri og tekjutryggingu þá nemur gliðnunin 18,15% eða 17 þús. kr. á milli þessara greiðslna til ellilífeyrisþegans annars vegar og verkamannalauna hins vegar.

Varðandi lyfjakostnað og margvíslegan kostnað tengdan sjúkdómum hefur einnig hallað á eldra fólk. Biðlistar eftir hjúkrunarheimilum eru enn svo langir að þriðjungur þeirra sem eru á slíkum biðlistum hverfur af þeim fyrir andláts sakir án þess að hafa fengið nauðsynlega þjónustu. Staðreyndin er nefnilega sú að margir aldraðir hafa ekki tíma til að bíða.

Á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum eru nú um 270 einstaklingar sem skilgreindir eru í mjög brýnni þörf. Þetta er svo þrátt fyrir samkomulag sem Landssambandi eldri borgara tókst að knýja fram í nóvember árið 2002, um að á næstu þremur árum yrðu byggð hjúkrunarheimili með 150–200 vistunarrýmum, og þrátt fyrir nýtt hjúkrunarheimili í Sogamýri, sem opna á 2007, er líklegt að biðlistinn verði álíka langur þá og hann er nú.

Í fréttum fylgjumst við með baráttu Landssambands eldri borgara. Haldnir eru samráðsfundir, stopulir þó, en um síðustu mánaðamót var skipaður enn einn vinnuhópurinn. Fyrsta spurning mín til hæstv. heilbrigðisráðherra er: Hvað er þessum vinnuhópi ætlað að gera, hvenær liggja niðurstöður fyrir og hvað verður gert með þær ef í ljós kemur að þær tölur sem Landssamband eldri borgara hefur reitt fram verða staðfestar?

Fjárlagafrumvarpið lofar satt að segja ekki góðu og er alveg ljóst að til þess eins að halda í horfinu verður að breyta því. Í því kemur fram að ellilífeyrir á að hækka um 5,9% á næsta ári en í forsendum frumvarpsins kemur jafnframt fram að fjölgun bótaþega er áætluð 3%. Þegar dæmið er gert upp í 4% verðbólgu er ljóst að um rýrnun er að ræða. Tekjutryggingaraukinn á hins vegar að hækka um hærri hlutfallstölu en með því að hafa kjarabætur af hreyfihömluðu fólki. Í frumvarpinu segir einmitt að 393,6 milljónir, sem áður hafi runnið til hreyfihamlaðra, aldraðra og öryrkja til reksturs bifreiðar, verði notaðar og nú leyfi ég mér að vitna, með leyfi forseta: „... til að hækka tekjutryggingarauka hjá elli- og örorkulífeyrisþegum.“

Síðan er talað um að taka 226,4 milljónir til að mæta óskilgreindri hagræðingu, orð sem oft er notað um niðurskurð.

Ég ætla á þessu stigi að gefa mér að fallið verði frá þessari siðlausu fyrirætlun en spyrja þess í stað, og er það önnur spurning mín til hæstv. heilbrigðisráðherra, hvort ríkisstjórnin sé reiðubúin að fara að tillögum Landssambands eldri borgara og hækka grunnlífeyri um 17 þús. kr., eða að öðrum kosti helming þeirrar upphæðar, jafnframt því sem skatti yrði aflétt af þessari upphæð. Mér skilst að niðurstaðan yrði sú sama.

Þriðja og lokaspurningin til hæstv. ráðherra er hvort ekki standi til að endurskoða áform um smíði hjúkrunarheimila þannig að takast megi að koma biðlistum í viðunandi horf. Ljóst er að stórefla þarf heimahjúkrun og heimilishjálp til að koma í veg fyrir að listarnir lengist en einnig þurfa 200–300 rými að koma til sögunnar fyrir 2008 svo að þetta takmark náist. Ég læt bíða til síðari tíma að ræða þá hrikalegu mismunun sem hjúkrunarheimilin í landinu búa við varðandi fjárveitingar úr ríkissjóði.