132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:05]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaukalaga fyrir árið 2005, sem sýnir á margan hátt afskaplega gleðilega niðurstöðu. Í fyrsta lagi mun venjulegur rekstur ríkissjóðs leiða til breyttrar niðurstöðu fjárlaga, úr 10 milljarða kr. afgangi í tæplega 30 milljarða kr. afgang. Það er í sjálfu sér mjög góð afkoma, frú forseti. En auk þess mun salan á Símanum bæta um betur og hækka afganginn upp í 85 milljarða kr., sem er 7–8% eða 8–9% af landsframleiðslu. Það held ég að sé algjört einsdæmi meðal þjóða í heiminum. (Gripið fram í.)

Það skemmtilegasta við söluna á Landssímanum er að hluti af andvirðinu, 32 milljarðar kr., fara til greiðslu á erlendum skuldum sem lækka vaxtabyrði þjóðarinnar um alla framtíð. Hinn hlutinn er tekinn út úr efnahagslífinu til að byrja með, utan 2–3 milljarða sem fara seigfljótandi út á næsta hálfa ári, eða eitthvað slíkt. Þannig eru 35 milljarðar kr. teknir út úr efnahagslífinu og settir inn í Seðlabankann til geymslu. Ég veit ekkert tæki betra til að slá á þenslu en slíka aðgerð því að Síminn var staðgreiddur. Hann var staðgreiddur með 35 milljörðum íslenskra króna og þær krónur voru teknar út úr efnahagslífinu. Þetta sýnir því betur en margt annað að Seðlabankinn stendur ekki einn í baráttunni við þensluna, langt í frá.

Frumvarpið sýnir líka — við þurfum alltaf að skoða það — hvernig fjárlagafrumvarpið var. Hvernig voru fjárlögin sem samþykkt voru, hvernig líta fjáraukalögin út og hvernig lítur ríkisreikningurinn út? Þetta á náttúrlega allt að sýna samhengið eins og bent hefur verið á í umræðunni. Helst eiga að vera sem minnst frávik þar á milli en þau eru reyndar ansi mikil. En þau skýrast af miklu góðæri, mikilli þenslu og umsvifum í atvinnulífinu, sem ég get varla sagt að sé leiðinlegur vandi að glíma við, frú forseti.

Ég tek undir athugasemdir stjórnarandstæðinga, t.d. athugasemdir hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar sem eru réttmætar, um sambandið við fjárreiðulögin. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að skoða það vel. Ég þarf ekki að hafa um það fleiri orð sjálfur.

Það eru tvö atriði í þessu frumvarpi sem láta afskaplega lítið yfir sér, mjög lítið. Það er liður 7.14 á bls. 6. Þar er bara lítil setning: „Að kaupa eignarhluta sveitarfélaga í Landsvirkjun.“ Þetta er eitthvert smotterí og svo stendur á bls. 64 um þessa grein: „Heimildir 7.14 og 7.15 skýra sig að mestu sjálfar.“

Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um 25–30 milljarða kr., frú forseti. Liður 7.15 er um að taka þátt í hlutafjáraukningu í Fiskeldi Eyjafjarðar, það eru 0,04 milljarðar kr. en liður 7.14, varðandi Landsvirkjun, er sennilega upp á 25–30 milljarða kr. Maður afgreiðir þetta ekki svona. Þótt um sé að ræða eignabreytingu, þ.e. að ríkið láti peninga af hendi og fái eitthvað í staðinn þá er þetta náttúrlega stórkostleg ríkisvæðing, ef við lítum á sveitarfélögin sem eitthvað frábrugðin ríkinu. Þetta bætist við óskaplega ríkisvæðingu sem felst í framkvæmdum við Kárahnjúka, sem eru á vegum Landsvirkjunar. Ég vil benda á þetta og draga fram í umræðuna að þarna er ríkinu ætlað að kaupa í Landsvirkjun, og um það getið með tveimur setningum í frumvarpinu, fyrir upphæð sem slagar upp í söluverð Landssímans.

Svo er önnur lítil setning, hún er reyndar örlítið lengri. Það er liður 7.16 á sömu síðu: „Að ganga til samninga um byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík á grundvelli fyrirliggjandi útboðs.“

Um það segir síðan, með leyfi frú forseta:

„Heimild 7.16 er til að ganga til samninga um byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík á grundvelli útboðs sem fram fór fyrr á árinu. Hlutur ríkisins í samningsgreiðslum er 54% eða um 324 millj. kr. á ári frá því húsið verður tekið í notkun, en áætlað er að það verði á árinu 2009. Heildargreiðslur ríkisins á hinum 35 ára samningstíma nema því um 6,5 milljörðum króna að núvirði.“

Ég held að sumir gætu farið dálítið illa á þessu góðæri, ekki bara einstaklingar heldur líka ríkið og sveitarfélög. Sé það metið 6,5 milljarðar kr. sem greiðist af ríkinu er hægt með dálitlum reikningskúnstum að finna út að framlag Reykjavíkurborgar er 5,5 milljarðar kr., samtals 12 milljarðar kr., sem þessir tveir opinberu aðilar, ríki og Reykjavíkurborg, ná allt í einu saman um. Frú forseti, þá er náttúrlega engin gagnrýni til í þjóðfélaginu, þegar R-listinn og ríkisstjórnin ná saman. Eiginlega hefur ekkert heyrst annað en hallelúja um þetta fyrirbæri. Það er eins og guð almáttugur hafi gefið Íslendingum þetta og það sé ógurlega gaman. En þetta er að sjálfsögðu borgað og verður borgað af börnum okkar. Þeir sem eru nýfæddir í dag borga síðustu krónuna til þessa þegar þeir verða 35 ára, fyrir utan alla hina. Þetta eru óskaplegar upphæðir. Ég reiknaði út í gamni hvað þetta væri mikið á fjögurra manna fjölskyldu í Reykjavík, þ.e. hlutur Reykjavíkurborgar. Það eru 220 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Hlutur ríkisins dreift á alla Íslendinga, þ.e. hverja fjögurra manna fjölskyldu, er 90 þús. kr. til viðbótar. Í Reykjavík er því um að ræða 310 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ég veit ekki hvað almenningur segir um þetta. Það er kannski voðalega gaman að fara á tónleika en við eigum fullt af húsum. Það er ekki meiningin að taka þau úr sambandi og það gengur illa að reka þau.

Ég vildi benda á þetta vegna þess að mér virðist sem menn séu komnir með góðærisglýju í augun og nú bætist ríkisvaldið og Reykjavíkurborg í hóp þeirra Íslendinga sem eru afskaplega kátir og glaðir að taka lán, eyða og spenna, kaupa jeppa o.s.frv., sem gleymt hafa góðum dyggðum eins og sparnaði og ráðdeild. En ég ætla að minna þessa aðila, bæði ríkisstjórnina og R-listann í Reykjavík, borgarstjórn, á að það er ekki alltaf góðæri og ekki gefið, ekkert náttúrulögmál, að launin hækki eins gífurlega og þau hafa gert á síðustu tíu árum. Ég vona að þau haldi áfram að hækka. Ef þessi ríkisstjórn verður áfram þá eru miklar líkur á því en það eru líka líkur á að aðrir flokkar komist í stjórn eða að eitthvað fari úrskeiðis. (Gripið fram í: Ertu eitthvað svartsýnn?) og þetta verði ekki alveg svona glimrandi gott til framtíðar. (Gripið fram í.)

Ég held að einstaklingar, fyrirtæki, kannski sérstaklega sveitarfélög, og ríkissjóður þurfi að skoða sinn hug í þessu máli, að muna eftir því að ráðdeild og sparnaður eru líka ágætis dyggðir.

Það er dálítið undarlegt að hér er talað um þenslu, verið að tala um aumingja Seðlabankann sem stendur einn í baráttunni. Ég gat um það áðan að þetta frumvarp sýnir að ríkisstjórnin stendur nú með honum. Menn tala um þenslu. Það má ekki byggja vegi á Vestfjörðum þótt menn sjái þar ekki einu sinni vegina þegar þeir keyra eftir þeim. Maður heldur að maður sé úti í móa. En það er ekki hægt að gera vegi þar af því að það er svo mikil þensla. Það má ekki byggja sjúkrahús og ekki gera þetta eða hitt af því að þenslan sé of mikil. Það er alveg rétt. Það má ekki byggja Sundabraut af því að það er svo mikil þensla. En það er hægt að fara út í þessa framkvæmd eins og ekkert sé og á henni verður byrjað strax. Strax og búið er að samþykkja þetta með einhverjum hætti á Alþingi — því að það þarf sem betur fer að samþykkja hana — þá munu menn byrja að grafa. Fyrst á að á að rífa öll húsin sem fyrir eru. Það tekur nú dágóðan tíma og kostar aldeilis mannafla og vinnuvélar, í samkeppni við Austurland. Svo þarf að fara að grafa grunn, mjög djúpan, og svo þarf að byggja. Þetta á allt að klárast á fjórum árum. Það verður sko dúndurgangur á því, frú forseti, og menn óttast ekki neina þenslu eða neitt slíkt í miðri Reykjavík. (Gripið fram í.) Þetta finnst mér dálítið undarlegt.

En það er ekki bara það að bygging hússins muni valda þenslu heldur kostar það gífurlega mikið í rekstri þegar það verður tilbúið. Ég hef ekki séð — hef reyndar ekki kynnt mér þá samninga sem þarna eru að baki — hvað menn ætla að gera ef forsendurnar ganga ekki eftir, um hve margir sækja tónleika o.s.frv. Það á að byggja hótel við hliðina, fimm stjörnu hótel þar sem kostar sennilega 30 þús. kr. nóttin eða þar um bil. Hvernig menn ætla að manna það allt, fylla það af gestum? Skyldu allar þessar forsendur ekki ganga eftir, hvað gerist þá? Þá stendur þarna heljarinnar hús niðri við höfn sem er bara ekki í rekstri. Þá munu að sjálfsögðu ríkissjóður, borgarsjóður eða báðir tveir grípa undir og koma með viðbótarfé eins og gerst hefur í Þjóðleikhúsinu, í Borgarleikhúsinu (Gripið fram í.) og hjá sinfóníunni, sem illa gengur að reka, eða hjá Ríkisútvarpinu (Gripið fram í.) eða kvikmyndahátíð. Bara að nefna það. Ég vil biðja menn að ganga hægt um gleðinnar dyr í þessu efni.

Ég mátti til með að nefna þetta af því að þetta er svo lítilsvert mál í fjáraukalögunum. Á þetta hefur eiginlega enginn minnst nema formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Magnús Stefánsson. Hann nefndi þetta. Aðrir hafa ekki nefnt þetta enda skilst mér á mörgum að þeir haldi að þetta borgi ekki einn einasti maður á Íslandi.