132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[18:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ágætt að fá þennan hala á utandagskrárumræðuna sem við höfðum hér í dag þegar við áttum orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um málefni aldraðra og kjör þeirra í samfélaginu.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra í síðari ræðu hans að búsetumál aldraðra séu í umræðu og í deiglunni í ráðuneytinu. Ég fagna því, hæstv. forseti, að það skuli vera í bígerð að marka þá einhvers konar stefnu um búsetumál aldraðra og önnur form eða valkosti í þeim efnum og nefni þar málefni fatlaðra og það hvernig búsetumál fatlaðra hafa þróast. Auðvitað er eðlilegt að búsetumál aldraðra fái að þróast á svipuðum nótum.

Einnig krafan um að hjúkrunarrýmin verði einbýli og eins manns rými, þ.e. að fólk hafi sitt prívat pláss sem það geti þó kallað heimili sitt. Annað er auðvitað fullkomlega óviðunandi og hæstv. ráðherra tekur auðvitað undir það. Samt heyrir maður í umræðunni í fjölmiðlum að verið sé að reisa hjúkrunarheimili á Selfossi þar sem enn sé gert ráð fyrir tvíbýlum. Nú vil ég bara fræðast um það af hæstv. ráðherra hvort það sé rétt. Erum við enn að reisa hjúkrunarheimili í dag þar sem þessari hugmyndafræði um sérbýli fyrir hvern og einn er ekki framfylgt eða fullnægt?