132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Húsnæðismál geðfatlaðra.

145. mál
[13:54]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þann 10. október síðastliðinn var alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn haldinn og af því tilefni hélt Rauði krossinn ráðstefnu um geðheilbrigðismál á Íslandi. Þar kom fram að tugir þúsunda Íslendinga berjast við einhvers konar geðraskanir á hverjum tíma. Það kom líka fram að á næstu árum mun þunglyndum stórlega fjölga á Íslandi sem og víðast hvar annars staðar, því miður. Í þessum hópi er því að fjölga og þeir sem eru þar hvað verst staddir þurfa fjölþætt úrræði. Ég vil draga það sérstaklega fram að með sölu Símans skapaðist svigrúm til að stórefla þennan málaflokk. Eins og hér kom fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra fer 1 milljarður af þeim fjármunum til búsetuúrræða, dagvistunarúrræða og endurhæfingarúrræða fyrir þennan hóp, sem er mjög jákvætt skref, fyrir utan þær 500 millj. sem fara úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Ég tel því að við séum að stíga mjög stórt framfaraskref í þessum málaflokki.