132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Einkareknir grunnskólar.

115. mál
[14:07]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur beint til mín tveimur spurningum.

Í fyrsta lagi: „Er von á almennri löggjöf um einkarekna grunnskóla, þ.e. skóla sem reknir eru af öðrum en opinberum aðilum, utan ramma hverfisskólanna?“

Og í öðru lagi: „Ef svo er, ætti í slíkri löggjöf að mati ráðherra að samræma framlög til einkarekinna grunnskóla og takmarka eða banna innheimtu skólagjalda til viðbótar við opinbera framlagið?“

Hvað fyrri spurninguna varðar hefur á undanförnum missirum verið unnið að því af hálfu ráðuneytis menntamála að kanna þörf á breytingum á grunnskólalögum, m.a. með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er eftir að rekstur grunnskólans fluttist frá ríkinu til sveitarfélaga árið 1996 en gildandi grunnskólalög eru eins og menn vita frá 1995. Við þá athugun hefur verið litið almennt til framkvæmdarinnar og þeirra álitamála sem upp hafa komið m.a. tengd úrskurðum ráðuneytisins vegna grunnskólastigsins. Auk þess hafa sérstaklega verið til athugunar heimildir til stofnunar og reksturs einkarekinna grunnskóla, viðurkenningum þeirra og rétti til opinberra framlaga.

Vinna við grunnskólafrumvarpið er nú á lokastigi í menntamálaráðuneytinu en við höfum verið að vinna úr athugasemdum frá ýmsum hagsmunaaðilum sem við höfum kynnt frumvarpið, þ.e. Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samtökum skólastjóra, kennara og foreldra og Samtökum sjálfstæðra skóla. Að því loknu verður frumvarpið sem er breyting á núverandi grunnskólalögum lagt fyrir Alþingi á þessu haustþingi.

Ég vil ítreka það og undirstrika að ekki er gert ráð fyrir sérstakri löggjöf af því að sérstaklega var talað um það í spurningu þeirri sem var beint til mín, að ekki er gert ráð fyrir sérstakri löggjöf um einkarekna grunnskóla heldur verða ákvæði um einkarekna skóla gerð skýrari í þeim lögum sem nú eru í gildi um grunnskóla.

Sjálfstætt reknir skólar á skyldunámsstigi gegna mikilvægu hlutverki í flestum ef ekki öllum þróaðri ríkjum heims. Í sumum ríkjum eru þeir í meiri hluta skólastofnana, t.d. 65% grunnskóla í Hollandi, annars staðar hlutfallslega færri og má nefna að 13% grunnskóla í Danmörku eru einkareknir. Hér á landi eru þeir einungis lítið brot af grunnskólum landsins. Alls staðar eiga þessir skólar það sameiginlegt að vera reknir fyrir opinbert fé að mestu leyti og þá í samræmi við fjölda nemenda. Þeir eru engu að síður í samkeppni um nemendur við skóla sem reknir eru af sveitarfélaginu eða ríkinu. Dönsku skólarnir eru að vísu ekki fjármagnaðir af opinberu fé nema að þremur fjórðu, afgangurinn er sjálfsaflafé. Skólarnir starfa alls staðar eftir reglum sem settar eru af opinberum eftirlitsaðilum og eftir aðalnámskrám hvers ríkis fyrir sig sem þeir verða að fylgja. Þetta getur þýtt að opinber skóli sem ekki stendur sig vel að mati foreldra þarf að sjá á eftir nemendum til sjálfstætt starfandi skóla á sama svæði og það að foreldrar hafi slíkt val hefur hvarvetna reynst mikill hvati fyrir skólakerfið í heild og ekki síst fyrir hina opinberu skóla.

Hvað varðar síðari spurninguna er rétt að taka fram að í þeirri vinnu sem unnin hefur verið af hálfu ráðuneytisins við endurskoðun grunnskólalaganna er gert ráð fyrir að ákveðið fjárframlag sveitarfélags verði til reksturs sjálfstætt starfandi grunnskóla að tilteknum skilyrðum uppfylltum til að tryggja enn frekar rekstrargrundvöll þeirra en einnig er rétt að undirstrika að það er í ákvörðun sveitarfélaga að heimila hvort slíkir skólar séu starfandi innan þeirra svæðis og hvort þeir vilji yfir höfuð hafa fjölbreytni innan þeirra raða.

Ákvæðið um einkaskóla í grunnskólalögum hefur verið óbreytt allt frá gildistöku þeirra 1974 og í þeim lögum var tekið fram að einkaskólar ættu ekki kröfu til styrks af almannafé. Í gildandi lögum eru ákvæði um einkaskóla í 56. gr. nánast samhljóða lögunum frá 1974. Nokkrir einkaskólar eða sjálfstætt starfandi grunnskólar hafa verið reknir hér á landi um langan tíma eins og Ísaksskóli, Landakotsskóli, Suðurhlíðarskóli og Tjarnarskóli og síðan eru einnig starfandi tveir Waldorfskólar og nýjasti sjálfstætt rekni skólinn er barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á og er dæmi um mjög vel heppnaðan einkarekinn skóla sem hefur aukið fjölbreytni í skólastarfi. Flestir þessara skóla hafa átt í fjárhagserfiðleikum þar sem framlag sveitarfélaga til þeirra hefur ekki nægt til að reka skólana með viðunandi hætti. Þar sem engin ákvæði hafa verið í lögum um rétt þessara skóla til framlaga hefur það alfarið verið ákvörðunaratriði sveitarfélaga með hvaða hætti starfsemi þeirra hefur verið styrkt. Þær breytingar sem lagðar eru til í 56. gr. gildandi grunnskólalaga í frumvarpinu miðast við að gera stöðu þessara skóla, sjálfstætt starfandi grunnskóla hér á landi, sterkari en nú er miðað við núgildandi löggjöf.

Ef ég svara stutt, af því að tími minn er á þrotum í ræðustól í bili, hvort ég ætli að beita mér fyrir því að banna eigi innheimtu skólagjalda til viðbótar við opinbera framlagið þá er svarið nei.