132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Námsefni framleitt af aðilum utan skólakerfisins.

123. mál
[14:23]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í lögum um grunnskóla er kveðið á um námsefni til kennslu í grunnskóla og sérstaklega kveðið á um það í 93. gr. grunnskólalaga. Þar segir m.a. að Námsgagnastofnun hafi það lögbundna hlutverk að sjá skólum fyrir námsefni, eins og við þekkjum, og það skuli vera nemendum að kostnaðarlausu. Stofnunin framleiðir efnið sjálf en er einnig heimilt að útvega það frá öðrum aðilum og dreifa til skóla.

Ráðuneytið hefur ekkert við það að athuga að aðrir aðilar en Námsgagnastofnun, þ.e. aðilar utan skólanna, dreifi námsefni til skólanna sem samrýmist ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla ef ekki þarf að greiða fyrir efnið. Ég tel það í raun nokkuð jákvæða þróun.

Mörg dæmi eru um slíka dreifingu efnis frá stofnunum og samtökum og má nefna Lýðheilsustöð, Rauða kross Íslands, lögregluna og Umferðarstofu. Auk þess býður Menntagátt margs konar námsefni í rafrænu formi án endurgjalds. Það er í samræmi við stefnu menntamálaráðuneytisins í upplýsingatækni að námsefni verði aðgengilegt fyrir nemendur á rafrænu formi þeim að kostnaðarlausu. Ráðuneytið er því mjög jákvætt gagnvart þessari þróun og fagnar hvers kyns vel unnu námsefni að því skilyrði uppfylltu að það sé nemendum að kostnaðarlausu og uppfylli ákvæði aðalnámskrár.

Einnig má nefna að Skólavefurinn framleiðir og birtir fjölbreytt efni í áskrift til foreldra og nemenda sem einnig er góð þróun. Þar geta foreldrar keypt viðbótarefni fyrir börn sín gegn vægu gjaldi.

Ég held að það sé fagnaðarefni að samfélagið taki virkan þátt í námi grunnskólanemenda og sjái sér fært að búa til námsefni sem kennarar og fagfólk innan skólanna getur síðan valið um að kenna. Það er mikilvægt að kennarar séu faglega sterkir og vel menntaðir til að velja námsefni sem síðan fellur undir markmið aðalnámskrár. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskólans er val námsefnis alfarið í höndum skólanna sjálfra. Hver skóli tekur sjálfstæða ákvörðun um hvaða efni er nýtt til kennslu. Fagfólki sem starfar í íslenskum grunnskólum er fullkomlega treystandi til að velja besta námsefnið til að uppfylla þau markmið sem sett eru í aðalnámskrá grunnskóla.

Ég vil einnig geta þess að auk námsefnis frá öðrum aðilum en opinberum hefur grunnskólum á undanförnum árum í vaxandi mæli verið boðin þátttaka í ýmsum verkefnum. Sem dæmi má nefna ritgerðarsamkeppni, nýsköpunarsamkeppni, ljóðasamkeppni, myndasamkeppni, samkeppni um gerð vefsvæðis og slagorðasamkeppni. Í flestum tilvikum er um að ræða verkefni án beinnar aðkomu eða þátttöku ráðuneytisins. Í sumum tilvikum er frumkvæðið þó komið frá stjórnvöldum, t.d. samvinna menntamálaráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis á síðasta ári um samkeppni sjávarútvegsvef í grunnskólum. Einnig hefur ráðuneytið styrkt verkefni af ýmsu tagi, t.d. nýsköpunarkeppni grunnskólanna, stóru upplestrarkeppnina, stærðfræðikeppni í grunnskólum á vegum framhaldsskóla og norrænu stærðfræðikeppnina KappAbel.

Einnig senda ýmsir aðilar boð til grunnskóla um ýmis verkefni án vitneskju ráðuneytisins. Ég tel að fyrirtæki og stofnanir verði að gæta hófs í að senda skólum efni sem tengjast alfarið ákveðnu fyrirtæki eða vörumerki. Í öllum verkefnum af þessu tagi er ákvörðun um þátttöku í höndum grunnskólanna sjálfra og þeirra fagmanna sem þar starfa. Að mínu mati er það jákvætt að grunnskólar taki þátt í ýmsum verkefnum á vegum aðila utan skólans. Slíkt eykur oft víðsýni nemenda og gefur þeim kost á að leggja jákvæðu málefni lið og koma á framfæri skoðunum sínum og viðhorfum ungs fólks til málefnisins.

Meginatriðið er, hæstv. forseti, að ákvörðunin um þátttöku er í höndum skólanna sjálfra án afskipta menntamálaráðuneytisins. Ég treysti kennurum og fagfólki til að velja það námsefni sem uppfyllir þær kröfur sem við gerum í aðalnámskrá.