132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Viðbúnaðaráætlun vegna fuglaflensu.

92. mál
[15:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hafði beint til hans nokkrum spurningum sem mig langaði til að fá svör við og vona að ráðherrann komi að því í síðari ræðu sinni. En mig langar að spyrja um fleira. Það hefur komið fram að skýrsla sem lögð var fyrir ríkisstjórnina um viðbragðsáætlun og undirbúning áætlunarinnar hefur hingað til verið trúnaðarmál og ég vil spyrja hvort sá trúnaður ríki enn eða hvort t.d. heilbrigðis- og trygginganefnd gæti fengið þá skýrslu. Mig langar líka að vita hvernig ráðherra ætlar að standa að kynningu og fræðslu fyrir almenning og ég fagna því að hann ætlar reglubundið að gera þinginu grein fyrir stöðu og framvindu mála.

En ég spyr líka: Er samstaða milli heilbrigðisyfirvalda, almannavarna og sóttvarnayfirvalda og annarra þar til bærra aðila um hvernig eigi að standa að þessu? Ég spurði líka hvort orðið hefði verið við öllum þeim beiðnum sem komið hafa frá heilbrigðisyfirvöldum og öðrum aðilum um fjármagn til þess að byggja á forvarnir og aðrar aðgerðir sem grípa þarf til til að bregðast við fuglaflensu ef hún kæmi hingað. Ég vil líka spyrja um lagabreytingar sem, eins og komið hefur fram, þarf að grípa til til þess að allar heimildir séu til staðar í forvörnum. Er stefnt að því að lögfesta slíkar lagabreytingar á yfirstandandi þingi og er í núverandi fjárlögum, frú forseti, gert ráð fyrir nauðsynlegu fjármagni á næsta ári í forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir? Þetta tel ég mjög mikilvægt að fá fram við þessa umræðu.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svörin og treysti því að hann haldi þinginu og heilbrigðisnefnd upplýstum um þetta mál og gefi Alþingi reglubundið skýrslu um framvindu mála.