132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[15:48]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að vekja athygli á þessu máli því að þetta er vissulega stórt mál. Almennt eru hafrannsóknir og peningar til hafrannsókna allt of litlir að mínu mati, allt of litlir peningar fara í hafrannsóknir. Það þarf að merkja fleiri fisktegundir en loðnu og gera þarf atferlisrannsóknir og síðast en ekki síst þarf að gera meira af DNA-rannsóknum á fiski.

En við erum að tala hérna um loðnu og er mjög tímabært að ræða um hana. Illa horfir með loðnustofninn og án efa er það að einhverju leyti því að kenna að við erum að veiða of mikið magn, taka of mikið úr stofninum. Fyrir átta eða níu árum byrjaði ég að tala fyrir því að fleiri fengju að koma að rannsóknum en Hafrannsóknastofnun. Ég held að það sé leið sem við eigum einmitt að nota í sambandi við loðnuna, þ.e. að hleypa fleirum að til að rannsaka.

Ég held að flottrollsveiðar séu ákveðin bölvun í loðnunni og menn þurfa að fara mjög varlega í það. Á meðan við erum að ná upp loðnustofninum aftur tel ég að við eigum að stefna að því að veiða bara í vinnslu með nót og minnka bræðsluveiðarnar eins og hægt er. Það er mikill munur á því verðmæti sem við fáum í vinnslu, bæði fyrir Rússland og Japan, þ.e. frysta loðnu. Það munar miklu hvort við veiðum til bræðslu eða til frystingar.

Að lokum vil ég óska nýjum sjávarútvegsráðherra til hamingju með starf sitt og vona að hann muni taka tillit til sjónarmiða okkar í Frjálslynda flokknum eitthvað meira en síðustu ráðherrar hafa gert.