132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[16:02]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir góðar óskir mér til handa sem fram hafa komið í þessari umræðu og enn fremur þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem hefur verið ákaflega málefnaleg og upplýsandi því að við erum hér að fjalla um mál sem skiptir mjög miklu.

Ég held að við þurfum að hafa í huga nokkrar staðreyndir. Í fyrsta lagi þetta sem við höfum verið að ræða um, þ.e. þá ákvörðun að skilja þurfi eftir um 400 þús. tonn af loðnu til þess að standa undir því að loðnan verði sjálfbær og sé sjálfbær stofn. Nú hafa menn velt því fyrir sér hvort rétt sé mælt. Ég hef í sjálfu sér engin gögn sem benda til annars en að þetta sé rétt mæling. Við höfum farið um og leitað að loðnu og fram hefur farið mæling og hún hefur haft í för með sér tiltekna niðurstöðu og á þeim grundvelli er síðan gefinn út kvóti.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að við höfum á undanförnum árum ekki skilið eftir 400 þús. tonn heldur að meðaltali 30% meira. Við höfum skilið það eftir, og það hafa komið til hrygningar um 516 þús. tonn að jafnaði á undanförnum árum. Mér sýnist því þegar við skoðum þessar tölur að allt bendi til þess að við höfum ekki gengið of nærri loðnustofninum. Hann er með öðrum orðum fullkomlega sjálfbær stofn og ætti þess vegna að duga til þess sem við erum að reyna að gera, þ.e. að tryggja að hann skapi nægjanlegt fæðuframboð fyrir þorskinn og aðra nytjastofna.

Það er hins vegar mikið áhyggjuefni okkar að við höfum ekki getað fylgt eftir þeim mælingum sem hafa farið fram á loðnustofninum. Loðnan hefur leitað norður í höf og við höfum ekki haft aðstöðu til þess að fylgja því betur eftir. Það er nokkuð sem við þurfum hins vegar að geta lagt áherslu á og vonandi tekst okkur það á næstunni því að þarna er heilmikið í húfi, ekki bara fyrir loðnuna heldur ekki síður fyrir samspilið í hafinu sem við erum hér að ræða um.

Menn hafa líka rætt heilmikið um sumarloðnuna. Ég hef vakið athygli á því að hún hefur verið mjög lítil og hefur greinilega ekki umtalsverð áhrif, a.m.k eins og sakir standa. Enn fremur hef ég vakið athygli á því að nauðsynlegt sé að fram fari mælingar á áhrifum flottrollsins og mér heyrist (Forseti hringir.) hv. þingmenn almennt vera fylgjandi því, því að við vitum ekki nægilega mikið um áhrifin af flottrollinu og þess vegna er nauðsynlegt að við fáum niðurstöðu í þetta mál, þetta gamla deiluefni sem við þekkjum.