132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[10:35]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á fundi þingflokksformanna með forseta var farið yfir hvaða beiðnir um utandagskrárumræður lægju fyrir. Samkomulag var um að það yrði rætt við ráðherra og starfsmenn þingsins reyndu að koma því þannig fyrir á dagskrá að sem flestir kæmust að. En ég vil vekja athygli á að það er ekki eingöngu Frjálslyndi flokkurinn sem ekki hefur komist að með beiðnir um utandagskrárumræðu. Það á einnig við um Sjálfstæðisflokkinn. Þó svo að þetta raðist upp á þennan hátt núna á fyrstu dögum þingsins þá finnst mér einkennilegt ef það á að verða stórmál að ekki gæti jafnræðis akkúrat á fyrstu tveimur vikunum.

Við verðum auðvitað að haga störfum þingsins þannig að störfin geti almennt gengið þokkalega fyrir sig. Ef allar þær beiðnir um utandagskrárumræður sem liggja fyrir ættu að ganga fram á fyrstu tveimur vikunum gerðum við ekkert annað og þær kæmust ekki einu sinni allar fyrir á fundartíma þingsins. Við verðum því að horfa til þess hvernig hægt er að skipuleggja störf þingsins í heild sinni. Ég held að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins hljóti að skilja það ef þeir horfa yfir sviðið í heild hvernig við ætlum að halda áfram þingstörfum fram eftir hausti. Ef við eigum eingöngu að vera í utandagskrárumræðum getum við í sjálfu sér kannski ákveðið það en almenn mál þingsins munu þá ekki ganga fram eins og til er ætlast.