132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:10]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja jafnmikla athygli á því baráttumáli sem fram undan er innan vébanda Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir það. Ég geri ráð fyrir að augu landsmanna muni beinast að þessu baráttumáli sem og öðrum sem verða uppi á þessum landsfundi og eins og áður kom hér fram mun ég ekki láta mitt eftir liggja.

Hitt vil ég ekki dæma um, enda kannski ekki eins sögufróður um pólitík og hv. þingmaður, hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið við fyrri ályktanir eða ekki. En ég vil trúa því og vona að þær ályktanir sem verða lagðar fram í þessu tiltekna máli munu skila sér inn í þingsali og inn í lagabálk Íslendinga.