132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þær áherslur sem birtast í þessu þingmáli endurspegla og eru mjög í samræmi við áherslur og stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. VG leggur höfuðáherslu á að stórbæta kjör öryrkja og eldri borgara, eins og þegar hefur komið fram í umræðum á þingi, enda kusum við að gera þennan málaflokk að fyrsta málaflokki sem við tækjum upp í þinginu.

Það er þrennt sem ég vil nefna sérstaklega í tengslum við þetta þingmál sem er mér og okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að skapi. Í fyrsta lagi að beina þessum málum inn í samráðs- eða samningaferli. Hér segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samráði við samtök aldraðra og öryrkja, að beita sér fyrir því að komið verði á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega. Skoðuð verði þátttaka almannatrygginga og lífeyrissjóða í afkomutryggingu.“

Í fyrsta lagi erum við sammála því að stefna að afkomutryggingu og að um hana verði samið. Hér er talað um samráð en spurning hvort ganga eigi enn lengra og beina þessu inn í eiginlegan samningaferil en ég er ánægður og við erum ánægð með þessa áherslu. Við höfum haft vísi að samningum á undanförnum árum og þetta er að færast smám saman inn í þennan farveg vegna öflugrar baráttu Öryrkjabandalagsins og Landssambands eldri borgara sem hafa knúið mjög á um þetta. Það þýðir náttúrlega að þá samninga sem kunna að verða gerðir þarf að virða gagnstætt því sem gerðist eftir samningana sem gerðir voru við Öryrkjabandalag Íslands undir flóðljósum í Þjóðmenningarhúsinu í aðdraganda kosninganna 2003. Það var ekki staðið við þá samninga þrátt fyrir heitstrengingar og miklar yfirlýsingar í aðdraganda kosninganna á þeim tíma.

Ég vil minna á í þessu sambandi af því að hér er vísað í samspil á milli almannatrygginga og lífeyrissjóða að á árinu 1995, í upphafi stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, var því lýst yfir, og það var að finna í stefnuyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar, að þetta samspil yrði sérstaklega skoðað auk skattanna, samspil trygginga, lífeyrissjóða og skatta. Nefnd var sett á fót sem átti að fara í saumana á þessum málum. Hún kom saman til nokkurra funda og síðan ekki söguna meir. Það er mjög slæmt að sú vinna skyldi ekki hafa farið fram en ég bind miklar vonir við þær viðræður sem nú fara í hönd þótt ég væri ekki sáttur við svörin sem hæstv. heilbrigðisráðherra gaf mér í utandagskrárumræðu í fyrradag, sem ég skildi nánast sem svo að niðurstöður þeirra viðræðna yrðu virtar að vettugi, en ég ætla að vona að þar verði uppi breyttar áherslur.

Ég fagna því einnig að gengið skuli til viðræðna við Öryrkjabandalag Íslands um þá makalausu yfirlýsingu sem er að finna í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um að bæta tekjutryggingarauka ellilífeyrisþega með því að ganga á hlut hreyfihamlaðra öryrkja og eldri borgara. Þetta er fáheyrt og mun aldrei verða látið ganga hér í gegn án mikillar baráttu af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni. Ég þykist viss um að óhætt sé að tala fyrir hönd hennar allrar, hvort sem það er Samfylkingin, Frjálslyndir eða Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Þetta er það fyrsta sem ég vildi nefna: Hve mikilvægt er að beina þessum málum inn í samningaferli og ég hvet fólk enn og aftur til að fylgjast með þeim viðræðum sem fara í hönd við Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalag Íslands um kjör þeirra skjólstæðinga.

Í öðru lagi er í þingmálinu talað um að skerðingarhlutföll grunnlífeyrissjóðs tekjutryggingar verði rýmkuð verulega til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku. Þetta tel ég mjög gott. Kröfur um þetta hafa komið frá samtökum eldri borgara og öryrkja og ég tel mjög brýnt að þarna verði svigrúmið rýmkað. Ég vil því taka undir þá áherslu sem fram kemur í þingmáli þingmanna Samfylkingarinnar.

Í þriðja lagi vil ég nefna að hér segir um gólfið sem eigi að vera gagnvart tekjutryggingunum:

„Grunnlífeyrir og tekjutrygging verði sem næst lágmarksframfærslu eins og hún verður skilgreind í samræmi við neysluútgjöld lífeyrisþega. Raungildi grunnlífeyris og tekjutryggingar verði ekki lægra við upptöku afkomutryggingar en það var á árinu 1995.“

Ég bið hér um síðbúið leyfi til að vitna orðrétt í þingskjalið. Þetta er góðra gjalda vert þó að við eigum ekki að gefa okkur niðurstöðurnar úr samningaviðræðum við Landssamband eldri borgara þá er ekkert óeðlilegt að hér sé tilmælum beint til annars samningsaðilans, þ.e. ríkisvaldsins, um hvar þetta viðmið eigi að liggja. Hitt er annað mál að það hefur hallað á eldri borgara í lengri tíma og ég nefndi það í utandagskrárumræðu í fyrradag að þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp 1988 þá borguðu ellilífeyrisþegar ekki skatta af grunnlífeyri og tryggingaraukanum en gera það nú. Núna borga þeir skatta eins og aðrir sem 37,7% af tekjum umfram skattleysismörkin en þau liggja núna, eins og fram kom í máli hv. 1. flm. Jóhönnu Sigurðardóttur, í 71.296 kr.

Ég nefnd það um daginn að hér væri um að ræða 13% skatt þegar litið er á heildina en að sjálfsögðu eru lífeyrisþegar að greiða skatt með sama hlutfalli og aðrir gera. Að sjálfsögðu, segi ég. Þar vísa ég aðeins í prósentuna. Hins vegar finnst mér fráleitt að þeir séu ekki undanþegnir sköttum af grunnlífeyrinum eins og samtök þeirra hafa óskað eftir.

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á stuðning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þetta þingmál.