132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil gera athugasemdir við þær yfirlýsingar sem hv. þm. Kristján Möller gaf um lífeyrissjóði. Ég fékk ekki betur skilið en að hann væri að stilla upp sem andstæðum annars vegar hinu spillta lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og hins vegar lífeyrissjóðum innan gamla SAL-kerfisins. Þetta er málflutningur sem ég felli mig ekki við.

Ef það á að stilla upp andstæðum, spillingunni annars vegar og hinu réttláta hins vegar, skulum við annars vegar horfa til lífeyrissjóðs þingmanna, lífeyrisréttinda alþingismanna og ráðherra, og hins vegar almenns launafólks. Þar er spilling annars vegar og almenn réttindi hins vegar. Ef við ætlum að stilla upp andstæðum skulum við ekki stilla upp þessum kerfum heldur hátekjumanninum og lágtekjumanninum. Við skulum horfa til tekna og lífeyrisréttinda strætisvagnabílstjórans, sjúkraliðans, hjúkrunarfræðingsins, slökkviliðsmannsins og annarra annars vegar og hins vegar forstjóranna og ofurlaunafólks. Þá skulum við fara að tala um andstæður. Hv. þingmaður talar um að þegar upp á hafi vantað sletti ríkissjóður stórum summum inn í lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Við skulum fara í gegnum hvað gert var við þessa sjóði fyrr á tíð, þá peninga sem haldið var eftir og notaðir í þágu ríkissjóðs, þá peninga sem óbeint runnu inn í almannatryggingakerfið og ollu því að gamli sjóðurinn innan þessa kerfis varð peningalítill.