132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:07]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa farið úr salnum. Mér var mikið í mun að ræða við hv. þm. Ögmund Jónasson um þetta mál augliti til auglitis eins og ég sagði áðan. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að hafa farið úr salnum, ég hafði bara ekki tekið eftir að það væri annað andsvar. Ég ætla ekki að svara miklu af því sem sagt var vegna þess að hv. þingmaður fékk of stuttan tíma. Ég ætla aðeins að segja að það er alveg hárrétt að þingmannslaun mín og laun verkamanns eru með þokkalegt meðaltal en það bætir ekkert fyrir verkamanninn þó að svo sé, þó að við tökum það meðaltal, ekki frekar en manni sem er mjög kalt að vera með annan fótinn í heitu vatni og hinn í köldu. Það er ekki alveg víst hvernig það fer. En ég bíð eftir öðru andsvari hv. þingmanns og því sem ég missti af í byrjun. Ég hygg að sjónarmið okkar hvað varðar almenna lífeyrissjóði, eins og ég tók dæmi um varðandi verkamenn, og svo varðandi opinbera lífeyrissjóði, fari e.t.v. svolítið saman um að það sé mikið óréttlæti þarna á milli, a.m.k. vona ég að svo sé.