132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:24]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vonaðist til að þurfa ekki að endurtaka það sem ég hef áður sagt en ætla samt að gera það, frú forseti. Ég hélt ræðu fyrr í andsvari um það að árið 1995 var ákveðið að hækka lægstu laun í landinu. Menn höfðu reynt að gera það áratugum saman þar áður en það hafði alltaf farið í gegnum alla kjarasamninga, upp í gegnum uppmælingataxta og allt. Það var reynt að hækka lægstu laun án þess að það hefði neins staðar áhrif. Það tókst. Það tókst, frú forseti, með samstilltu átaki allra. Það tókst að hækka lægstu laun sem voru skammarlega lág, þau voru 42 þús. kr. þegar ég kom á þing 1995 og eru núna 103 þús. kr. Sumir halda því fram að þau séu enn of lág og ég get alveg fallist á það. En þessi laun hafa hækkað miklu meira en nokkuð annað og þau áttu að gera það. Þess vegna segi ég að það sé ekki heiðarlegt, ég sagði ekki heiðarlegt, af Samtökum aldraðra að nota þessi laun til viðmiðunar af því að það hentaði og kemur ekki vel út. Þeir eiga að sjálfsögðu að nota launaþróunina almennt eins og kemur fram í þessu svari. Ég er hér með samanburð af kaupmætti greiðslna Tryggingastofnunar til fjögurra tilbúinna lífeyrisþega í þessu svari og þær hafa allar hækkað jafnmikið eða meira en launaþróun almennt í landinu sem Hagstofa Íslands reiknar út. Ekki taxtar heldur launaþróun almennt.

Svo varðandi það að menn borgi núna skatta. Menn geta að sjálfsögðu fengið þessa útreikninga eftir skatta, með ráðstöfunartekjum eftir skatta. Það mundi ekki breyta niðurstöðunni því að launþegar borga líka skatta. En vandamálið sem menn glíma nú við, sýnist mér, er það að tekjur landsmanna og lífeyrir hafa hækkað svo ofboðslega mikið. Það er voðalega leiðinlegt því nú þurfa menn að greiða skatta. Mér finnst það ekki leiðinlegt. Mér finnst það bara ágætt að tekjur landsmanna hækki svo mikið að menn séu almennt farnir að greiða skatta. Mér finnst það líka gott að lífeyrisþegar séu farnir að borga skatta af því að lífeyrir er orðinn svo hár. Það er ekki vandamál í mínum huga heldur greiða þeir bara skatta eins og annað fólk, eins og skattkerfið er uppbyggt. Skattkerfið er jú þannig uppbyggt að þegar menn hækka í launum borga þeir hlutfallslega meira af tekjum sínum í skatta.