132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:57]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir sem hafa áhuga á að breyta og laga stöðu aldraðra verða að kanna málið með réttum aðferðum og nota réttar tölur. Hv. þingmenn úr stjórnarandstöðunni virðast allir lenda í rökþroti. Sumir fara að tala hátt, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson, af því að hann hefur ekki rök. Aðrir koma með dylgjur og vitleysu, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Hingað til hefur eingöngu hv. þm. Kristján Möller minnst á að ég hafi sagt að allir ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar væru fyllibyttur. Ég sagði einu sinni að þau vandamál sem ég hefði séð hjá öryrkjum sem væru óleysanleg, frú forseti, stöfuðu af óreglu. Þau örfáu dæmi sem ég hef séð um slíkt fela ekki í sér að ég hafi þar með sagt að allir örorkulífeyrisþegar væru fyllibyttur. Því fer fjarri. Þeir eru alls ekki fyllibyttur. Ég þekki fjölda öryrkja og margt aldrað fólk sem er ósköp venjulegt fólk og í engri óreglu. En að hv. þingmaður skuli leggjast svo lágt að taka undir þennan kór þykir mér dapurlegt. Það er tilraun til að skemma mannorð og ekkert annað.

Hv. þingmaður segir að tenging milli launaþróunar og bóta hafi rofnað. Það hefur í hæsta lagi rofnað upp á við, samkvæmt svari frá hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Af hverju eru menn með svona málflutning? (JGunn: Þú talar of hátt.) Af hverju geta menn ekki notað þær tölur og þær staðreyndir sem liggja fyrir, launaþróun samkvæmt útreikningum Hagstofunnar?

Svo vil ég benda hv. þingmanni á að ég hef, einn þingmanna, lagt til að breyta reglum um lífeyrissjóð þingmanna. Ég veit ekki til að hv. þingmaður hafi gert nokkuð annað en að bæta þau kjör ef eitthvað er.