132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[13:00]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður Pétur H. Blöndal kemur hér og kveinar mjög. Undan hverju? Undan því að hans eigin orð ríða nú eins og svipa um hrygglengju hans. Hv. þingmaður Pétur H. Blöndal var nú að enda við að staðfesta það hér í ræðustól að hann hefði sagt að sá vandi sem óleysanlegur væri hjá eldri borgurum stafaði af því sem hann kallaði sjálfur óreglu.

Frú forseti. Menn eiga ekki að taka svona til orða. Menn eiga ekki að dæma stóra hópa með þessum hætti. Þegar hv. þingmaður kemur og segir að verið sé að vega að mannorði þá tek ég undir það. En það er ekki verið að vega að mannorði hans. Það er verið að vega að heiðri stórs hóps og svona eiga menn einfaldlega ekki að tala. Það er Sjálfstæðisflokknum til skammar að senda hv. þingmann hingað sem talsmann sinn í þessa umræðu.

Hver hefur ræða hans í allan morgun verið? Hún hefur verið ein samfelld árás á málflutning eldri borgara. Hann hefur sagt að þeir beiti óheiðarlegum málflutningi vegna þess að þeir noti röng viðmið. Hann hefur sagt að tölur sem koma úr skýrslum þeirra séu rangar. Viðhorfið er alltaf hið sama og það dylst engum. Það er eins og þessum manni sé ekki vel við að menn standi hér í heiðarlegri og málefnalegri baráttu fyrir því að reyna að bæta kjör eldri borgara. Af hverju situr þá bara ekki hv. þingmaður einhvers staðar annars staðar en hér ef hann þolir síðan ekki að koma í umræðuna og heyra sín eigin orð og viðhorf endurtekin?