132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:38]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Háskólinn á Akureyri hefur verið í örum vexti og má segja að skólinn glími við ákveðna vaxtarverki vegna þess.

Fjölgun nemenda við Háskólann á Akureyri hefur orðið mun meiri en annars staðar. Þannig hefur ársnemendum sem greitt er fyrir fjölgað úr 520 árið 2001 í 1090 árið 2005 eða um 109% á fimm árum. Ýmiss konar nýbreytni sem bryddað hefur verið upp á hefur ekki tekist sem skyldi þó að mikill metnaður hafi verið lagður t.d. í upplýsingadeild við skólann. Þar starfar margt hæft fólk og sérstakt átak hefur verið gert til að ná til nemenda. Niðurstöður innritunarinnar núna verða hins vegar að teljast ákveðin vonbrigði. Af Íslendingunum sem sóttu um í upplýsingatæknideildina, og ég veit að hv. þingmaður og fyrirspyrjandi veit vel af því, voru einungis tveir sem uppfylltu inntökuskilyrði skólans með stúdentspróf, og af 14 útlendingum sem komu til greina taldi skólinn sjálfur raunhæft að ná til landsins alls eða um það bil níu. Niðurstaðan varð því sú að innrita ekki nýnema í deildina þó að deildin sjálf væri starfrækt áfram.

Skólinn hefur skilað áætlun til ársins 2008 sem ráðuneytið hefur fallist á með fyrirvara um fjárveitingar. Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstur skólans verði því sem næst á núlli árið 2005 með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til, í jafnvægi árið 2006 og síðan að skólinn geti byrjað að vinna á uppsöfnuðum rekstrarvanda árið 2007.

Reiknilíkanið sem hv. þingmaður spyr um grundvallast á reglum um fjárveitingar til háskóla. Þessar reglur eru nú í endurskoðun hjá starfshópi sem ég hef skipað og er starfshópurinn í fullu og algjöru samráði við skólana.

Í menntamálaráðuneytinu er að sjálfsögðu alltaf vilji til að taka til skoðunar tillögur um breytingar á reiknilíkaninu fyrir háskólastigið sem og í raun öðrum reiknilíkönum. Reiknilíkaninu er m.a. ætlað að auka gegnsæi hvað varðar fjármögnun háskólakennslu og ýta undir stöðugleika í rekstrarumhverfi háskóla sem geri þeim kleift að gera áætlanir til lengri tíma og vinna eftir þeim. Jafnframt er nauðsynlegt að reglubundin endurskoðun á reiknilíkaninu fari fram til þess að unnt sé að bregðast við þróun háskólastigsins og utanaðkomandi breytingum í rekstrarumhverfi háskóla.

Ég ítreka það hve þýðingarmikið er að fjármunum sé skipt með sanngjörnum hætti og líkanið geti mætt þeirri öru og jákvæðu þróun sem við upplifum nú innan háskólaumhverfisins. En um leið bendi ég á að líkanið verður að vera lifandi og þá er líka þýðingarmikið að ákveðinn stöðugleiki gildi þannig að skólarnir geti gert sínar áætlanir sem haldi.

Húsnæðisþörf háskóla er æðimismunandi og háð því hvers konar starfsemi þeir reka, bóknám, verklega kennslu eða rannsóknarstarfsemi. Mismunandi verðflokkun reiknilíkans fyrir háskóla er m.a. ætlað að taka á mismunandi rýmisþörf einstakra námsgreina og mismunandi aðstöðu. Þannig er reiknaður hlutur húsnæðis í framlögum á nema mismunandi eftir námsgreinum. Þess vegna er t.d. læknaneminn dýrari en viðskiptafræðineminn af því þar er tekið tillit til aukinna húsnæðisþarfa fyrir læknanemann.

Vegna þessa er aldrei gert ráð fyrir því þegar háskólar taka í notkun viðbótarhúsnæði að því fylgi sérstakar fjárveitingar umfram það sem fylgir þeirri starfsemi sem húsnæðinu er ætlað að hýsa. Í ljósi þess að skólinn er í örum vexti og það á eftir að koma í ljós hvernig tekst til með ýmsa starfsemi sem verið er að leggja upp með var þó ákveðið að hækka framlög til rannsókna við skólann um 55 millj. kr. árið 2004 en skólinn flutti í hið nýja hús í nóvember 2004. Þá var það liður í hagræðingu húsnæðismála hjá háskólanum að húsnæði skólans í Glerárgötu yrði selt og var ákveðið að verja andvirði sölunnar til þess að koma til móts við skólann á meðan á hagræðingaraðgerðum stendur.

Þegar reiknilíkan fyrir háskóla var fyrst tekið í notkun beindust áhyggjur manna að því að með tilliti til víðtæks námsframboðs væri skólinn of lítil eining til þess að geta borið sig í samkeppni við aðra háskóla. Þá var strax lögð áhersla á að stækka skólann og Háskólinn á Akureyri er sá háskóli sem hefur stækkað langmest á undanförnum árum eða ríflega tvöfaldað sig á fimm árum eins og ég gat um áðan. Skólinn hefur nú þegar náð þeim styrk sem nauðsynlegur er fyrir hann til þess að geta staðist samkeppni og hefur þegar sýnt fram á mikilvægi sitt svo um munar fyrir íslenskt samfélag. Næstu skref hljóta því að vera þau að skólinn nái jafnvægi í rekstri og fái þannig tækifæri til þess að styrkja innviðina og dafna með eðlilegum hraða. Það er einnig í samræmi við auknar gæðakröfur sem gerðar eru og verða gerðar til háskólastarfsemi hér á landi sem annars staðar.

Ég vil undirstrika að Háskólinn á Akureyri hefur verið einn af lykilþáttunum, og svo við bregðum fyrir okkur íþróttamáli, einn af lykilleikmönnunum í þeirri menntasókn sem við höfum staðið fyrir á háskólastiginu á undanförnum árum. Og ég ítreka að fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út í dag undirstrikar mikilvægi þess að halda þeirri menntasókn áfram og það munum við að sjálfsögðu gera.