132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:48]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Okkur í Frjálslynda flokknum er mjög umhugað um Háskólann á Akureyri og má nefna í því sambandi að fyrrum formaður Frjálslynda flokksins var helsti forvígismaður þess að háskólinn var stofnaður einmitt á Akureyri.

Háskólinn á Akureyri er mjög mikilvæg stofnun og ekki einungis mjög mikilvæg fyrir Akureyringa heldur landsmenn alla. Háskólinn hefur útvegað mikið af fagmenntuðu fólki til starfa á landsbyggðinni, í hinum dreifðu byggðum. Einnig hefur háskólinn verið brautryðjandi í fjarnámi. Það skiptir verulegu máli á landsbyggðinni og fyrir þá sem eru bundnir heima hjá sér.

Það sem veldur mér miklum áhyggjum er að hæstv. menntamálaráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir mikilvægi skólans og það sést í fjárlagafrumvarpinu. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði að háskólinn hefði fengið aukafjárveitingu einmitt á þessu ári en fjárveitingin fyrir næsta ár tekur ekki tillit til þess heldur er hún í samræmi við fjárveitinguna fyrir þetta ár, 2005. Því er eins víst að Háskólinn á Akureyri lendi enn og aftur í vandræðum á næsta ári ef fram heldur sem horfir. Það er visst áhyggjuefni þar sem hæstv. menntamálaráðherra er að boða einhverja menntasókn. En hún virðist ekki ná norður í land og hún virðist heldur ekki ná til iðnmenntunar í landinu. Við sjáum það á fjárframlögum, m.a. til Verkmenntaskólans á Austurlandi og víðar, að ekki er gert ráð fyrir því.

Ég vil að hæstv. menntamálaráðherra komist upp úr því fari að vera alltaf að tala um reiknilíkön. Það er alveg með ólíkindum að tala alltaf um reiknilíkön. Við verðum að horfa á þjóðfélagið, að halda þurfi úti fjölbreyttri menntun en ekki einhverri hagkvæmri menntun samkvæmt reiknilíkani. Þessi menntasókn hæstv. ráðherra endar með ósköpum því hún endar með því að allir verða að læra annaðhvort rekstrarfræði eða lögfræði. Það er mjög hagkvæmt samkvæmt reiknilíkönum hæstv. ráðherra.