132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:04]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða þingsályktunartillögu þingmanna Samfylkingarinnar um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja frá því í morgun. Það er ánægjulegt að verða vitni að því hve samstaða stjórnarandstöðunnar er mikil í þessu máli en allir flokkar stjórnarandstöðunnar hafa lýst yfir stuðningi við þetta þingmál. Það er ekki að ástæðulausu að við ræðum um kjör aldraðra og öryrkja í þinginu í þessari viku og jafnvel fram í næstu viku því að eins og komið hefur fram hefur hallað á þann hóp.

Samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins hafa komið til umræðu í morgun en ég ætla ekki að gera þær að umræðuefni því að mín reynsla er sú að þær hafi yfirleitt verið marklaus plögg. Þessar sömu ályktanir hafa komið fram á hverjum landsfundi, um bætt kjör aldraðra, en þær ályktanir og samþykktir hafa ekki skilað sér inn í þingsali. Ég ætla því ekki að eyða tíma mínum í að ræða þær þó að án efa verði fróðlegt að sjá hverju núverandi ályktunartillögur muni skila inn í þingið og hvort einhver breyting verði á, sem ég leyfi mér að efast um.

Í þingsályktunartillögunni sem allir þingmenn Samfylkingarinnar eru flutningsmenn að, um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja, er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni, í samráði við samtök aldraðra og öryrkja, að beita sér fyrir því að komið verði á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega. Í tillögunni er gert ráð fyrir að grunnlífeyrir og tekjutrygging verði sem næst lágmarksframfærslu eins og hún verður skilgreind í samræmi við neysluútgjöld lífeyrisþega.

Í dag er grunnlífeyrir aldraðra og öryrkja um 22 þús. kr. Tekjutryggingin, sé hún óskert, er um 43 þús. kr. fyrir aldraða og 44 þús. kr. fyrir öryrkja. Þetta eru því um 65 þús. kr. sem við erum að taka hér fyrir og teljum að eigi að verða sem næst lágmarksframfærslu.

Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur það verið eitt helsta stefnumál okkar í Samfylkingunni að þessari afkomutryggingu verði komið á þannig að enginn þurfi að búa við fátækt og óvissu um kjör sín. Og hér erum við sem sagt að leggja fram fyrsta skrefið. Við viljum einnig taka á þeirri fátæktargildru sem er í almannatryggingakerfinu í dag og snýr að þeim sem vilja á einhvern hátt auka tekjur sínar með vinnu. Það eru yfirleitt þeir sem hafa framfærslu sína af almannatryggingagreiðslum nánast einvörðungu en þeir lenda í þessari svokölluðu fátæktargildru að ná ekki að auka tekjur sínar vegna mjög harðra tekjutenginga og skattheimtu. Við leggjum til að þær tekjutengingar verði minnkaðar þannig að svigrúm til atvinnuþátttöku aukist fyrir þá sem vilja taka áfram þátt í atvinnulífinu. Við höfum lagt til að grunnlífeyririnn sem býr núna við 30% skerðingu, verði 20%, og tekjutryggingin sem sætir 45% skerðingu vegna tekna, verði 30% til að koma til móts við þessa hópa.

Mig langar til að nefna nokkur atriði sem hafa ekki komið fram í umræðunni og hnykkja á öðrum. Eitt af því sem hefur verið að gerast núna undanfarið við það að öryrkjar hafa fengið aldurstengdar örorkugreiðslur úr almannatryggingunum áður en öryrkinn verður 67 ára. Áður fyrr var það þannig að hann lækkaði um þúsund krónur í greiðslum frá Tryggingastofnun við að ná 67 ára aldri og verða ellilífeyrisþegi en nú er þetta að verða meira högg fyrir öryrkja að komast á bæturnar og þeir þurfa að sæta mun meiri skerðingu við það að fara á ellilífeyri og aldurstengda örorkugreiðslan fellur niður. Þetta er nokkuð sem við þurfum að skoða og ég verð vör við að lífeyrisþegar sem lenda í þessu hafa verið að koma að máli við mig vegna þessara þátta og þá þarf auðvitað að skoða.

Ríkisstjórnin er alltaf að veitast að þessum hópi á einhvern hátt og nú síðast í fjárlagafrumvarpinu. Þá leggja menn til að bensínstyrkurinn verði tekinn af hreyfihömluðum. Þar fundu þeir breiðu bökin að þessu sinni og ætla að taka bensínstyrkinn af þeim sem eru hreyfihamlaðir, rúmar 8 þús. kr. á mánuði. En það er ekki bara að hreyfihamlaðir eða lífeyrisþegar missi þær 8 þús. kr. við þetta heldur þurfa þeir að fara að greiða bifreiðagjöldin, sem voru hlunnindi sem hreyfihamlaðir lífeyrisþegar höfðu ef þeir voru með bensínstyrkinn.

Á móti á að koma hækkaður tekjutryggingarauki. En það hjálpar lífeyrisþegum lítið því að það eru örfáir með tekjutryggingaraukann eða milli 300 og 400 manns. Þarna eru á ferðinni tillögur frá ríkisstjórninni sem við munum aldrei sætta okkur við og munum berjast gegn af fullum krafti og því hafa aðrir í stjórnarandstöðunni einnig lýst yfir. Ég trúi því ekki að þeir stjórnarliðar sem hafa verið að berjast hér og tala fyrir bættum kjörum aldraðra muni samþykkja að það eigi að fara að taka af hreyfihömluðum bensínstyrkinn, 8 þús. kr., og hafa af þeim hlunnindin sem bifreiðagjöldin eru. En það er einmitt lagt til í fjárlagafrumvarpinu núna.

Ég vil einnig nefna vasapeningana, sem eru náttúrlega til skammar, vasapeningar þeirra sem eru á stofnunum. Mörgum öldruðum svíður það hvað mest að þurfa að sækja um þá ölmusu sem vasapeningarnir eru þegar þeir eru komnir á hjúkrunarheimili eða aðrar stofnanir. Vasapeningarnir, eins og þeir eru í dag, eru mjög tekjutengdir. Þetta eru rúmar 20 þús. kr. og ef lífeyrisþeginn er með yfir 7 þús. kr. annars staðar í tekjur skerðast þessar greiðslur um 65%. Þarna er því líka á ferðinni hlutur sem við þurfum að skoða mun betur einmitt við þá vinnu sem við leggjum til að farið verði í til að bæta kjör þeirra sem búa við greiðslur almannatrygginga sér til framfærslu.