132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef áður kvatt mér hljóðs í umræðunni og ítreka það sem ég hef áður sagt en mun víkja að örfáum atriðum til viðbótar. Ég tel að hér hafi farið fram mjög góð umræða um mjög gott málefni. Ég styð þetta þingmál mjög eindregið og tala þar fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en við leggjum mjög ríka áherslu á að kjör eldri borgara og öryrkja verði stórbætt frá því sem nú er.

Annað sem við höfum lagt mikla áherslu á og kemur einnig fram í umræddu þingmáli er að þessum málum verði beint í farveg samráðs og samninga. Það á að virða samningsrétt hjá Öryrkjabandalagi Íslands annars vegar og hjá Landssambandi eldri borgara hins vegar sem hafa beitt af sér af miklum krafti í kjarabaráttu fyrir hönd skjólstæðinga sinna á undanförnum árum sem ég tel að séu nú farnir að eygja ávöxt af sínu mikla erfiði en til þess þarf mikinn stuðning í samfélaginu. Ég held að ákaflega mikilvægt sé að menn fylgist mjög vel með þeim samningaviðræðum sem í hönd fara á milli ríkisvaldsins annars vegar og Landssambands eldri borgara hins vegar.

Það hefur komið fram að ágreiningur er um tölur, annars vegar á milli Landssambands eldri borgara og hins vegar ríkisstjórnarinnar. Sá ágreiningur kom m.a. fram í utandagskrárumræðu sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði stóðum fyrir í fyrradag um þetta málefni. Hæstv. heilbrigðisráðherra vefengdi þær tölur sem ég setti fram hér í ræðustól en eru í samræmi við það sem Landssamband eldri borgara hefur haldið fram. Ég tel mjög brýnt að farið verði vel í saumana á þeim tölum sem koma frá þessum aðilum. Ég hef trú á að ríkisstjórnin byggi á röngum forsendum í útreikningum sínum þannig að hún byggi um of og reikni út meðaltal með hliðsjón af tekjutryggingarauka ellilífeyrisþega.

Hversu margir skyldu fá hann óskertan? Það eru 314 manns af 25–27 þúsund. Þarna liggur skekkjan í útreikningum ríkisstjórnarinnar að því er ég tel. Ef við lítum á fjárlagafrumvarpið kemur fram að tekjutryggingarauki ellilífeyrisþega eigi að hækka um 25%, en ellilífeyrir, þ.e. grunnlífeyrir, um 5,9%. Nú þarf að hafa í huga að þessar tölur byggja á allskuggalegum forsendum, tekjutryggingaraukann á að hækka á kostnað hreyfihamlaðra öryrkja og ellilífeyrisþega, nokkuð sem mun náttúrlega aldrei ganga eftir. Við heyrum hver viðbrögð eru hér í þingsal við þessu og við höfum heyrt viðbrögð í samfélaginu, frá Landssambandi eldri borgara og frá Öryrkjabandalagi Íslands. Þessi samtök munu aldrei láta þetta yfir sig ganga að sjálfsögðu.

Varðandi hina töluna, 5,9%, hef ég áður gert grein fyrir að þegar höfð er hliðsjón af því að lífeyrisþegum mun að öllum líkindum fjölga um 3% á komandi ári og reiknað er með 4% verðbólgu þá er um kjararýrnun að ræða. En ég set þessar tölur engu að síður upp til að sýna fram á hvers vegna forsendur ríkisstjórnarinnar eru rangar. Tekjutryggingaraukinn er aðeins einn sjöundi hluti af ellilífeyrisgreiðslunum, af grunnlífeyri. Þegar þessi tala, þegar tekjutryggingaraukinn er lagður til grundvallar sem meðaltal í meðaltalsútreikningum ríkisstjórnarinnar sjá menn hvers vegna ríkisstjórnin fer vill vegar í þessu máli og hvers vegna hún heldur fram röngum tölum bæði í þingsalnum og í fjölmiðlum þegar þau mál ber á góma.

Eitt sem ég vildi leggja áherslu á og ég hef verið nokkuð spurður eftir í umræðunni er um skatta á lágtekjufólk. Ég nefndi þar töluna 12–13% af 110 þús. kr. Aðeins til að setja þetta inn í samhengi og skýra þetta nánar. Staðreyndin er sú að þriðjungur ellilífeyrisþega er með minna en 110 þús. kr. á mánuði. Það sem ég lagði og legg áherslu á er að sá hópur borgar núna skatt en borgaði engan árið 1988 þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp. Núna greiðir þessi hópur 37,73% í tekjuskatt. Sú upphæð nemur 41.503 kr. Frá því er dreginn persónuafsláttur upp á 28.321 kr. Alls gerir þá skatturinn 13.182 kr. eða 11,98%, eftir standa 96.818 kr. Við erum því ekki að tala um 110 þús. kr. tekjur, við erum að tala um tekjur undir 100 þús. kr. Við skulum ekki gleyma því að sumt fólk er þar fyrir neðan og sumir búa við afarkjör og við höfum fengið að sjá það í fjölmiðlum í sumar hvernig í hópi fátæks fólks á Íslandi eru stórir hópar aldraðra.

Að lokum um lífeyrissjóðina. Ég tel brýnt að styðja lífeyrissjóðina. Ég hef stutt frumvörp frá Frjálslynda flokknum sem hafa verið flutt hér ítrekað um að nauðsynlegt sé að koma að stuðningi við Lífeyrissjóð sjómanna. Þar voru loforð svikin í kjölfar samninga upp úr 1980. Í landinu eru lífeyrissjóðir sem búa við mjög erfiðan kost, bændur og ýmsir aðrir.

En missum ekki sjónar á því sem hér er verið að fást við. Við erum að tala almennt um kjör lífeyrisþega á Íslandi, um kjör eldri borgara á Íslandi. Við megum ekki láta ríkisstjórnina komast upp með það lengur að rýra kjör þessa fólks. Nú er mál að linni. Ég vona að samfélagið vakni upp, fylgist með þeim samningaviðræðum sem Landssamband eldri borgara hefur hafið við ríkisvaldið (Forseti hringir.) og við eigum að standa þétt að baki samninganefnd þess.